Gerast áskrifandi

Index: 0

Góður Jagger er eins og vel stilltur gítar

20.01.2022

Tíðindamaður ræddi nýlega við Kristján E. Gíslason sem er annar tveggja skipstjóra á Viðey RE 50 á móti Jóhannesi Ellerti Eiríkssyni, þegar hann var í landi rétt eftir áramótin. Það var ánægjulegt að verða vitni að frábærum árangri áhafnarinnar á Viðey RE sem er í eigu útgerðarfélagsins Brims hf í Reykjavík, með mestan afla ísfisktogara árið 2021 sem nam 10.347 tonnum og aflaverðmæti var 2,1 milljarðar króna.

Það gekk mjög vel hjá okkur á síðasta ári þar sem við vorum að jafnaði með 172 tonn í 60 veiðiferðum á árinu. Það sem skapar þennan árangur er að sjálfsögðu frábært hátækniskip, hörku áhöfn og vel hönnuð, sterk og endingargóð veiðarfæri frá Hampiðjunni. Við erum með 88,8 metra Jagger botntroll og notum við það  8 fermetra öflugaThyborøn týpu 14 toghlera sem vega  3,8 tonn hvor og skvera vel í sundur þessa gerð af botntrolli. Í tveggja trollaveiðinni erum við með með tvö 61,6 metra Jagger botntroll, sömu hlera og 5,3 tonna lóð tengd þar á milli við þriðja vírinn sagði Kristján.

Jagger trollið sem við Venni  höfum þróað ( Vernharður Hafliðason veiðarfærameistari hjá Hampiðjunni ) undanfarin ár hefur komið alveg einstaklega vel út við veiðarnar. Jaggerinn okkar er léttur í drætti, rifnar sáralítið og fer eftir botninum eins og sporhundur. Þessir góðu eiginleikar trollsins eru m.a. að þakka efnisvalinu í trollinu. Við erum með stóran riðil í kjaftinum og gríðarlega sterkt 2,5 mm Advant efni í skver, yfirbyrði og meirihluta undirbyrðis. Þar fyrir aftan erum við með mátstykki og poka úr Magnet Yellow 6,2 mm og það allt fellt á DynIce kvikklínur sem tengjast að framan með 4 axlaböndum við rússa. Mikill styrkur 6,2 mm Magnet Yellow efnisins gerir okkur kleyft að hífa öll okkar höl viðstöðulaust á rússanum inná tromlu án þess að hafa áhyggjur af að belgur eða poki rifni undan átökunum, sagði Kristján.

Við Venni höfum skoðað Jaggerinn rækilega bæði í tilraunatanki og með Go Pro neðansjávarmyndavél Hampiðjunnar.Á neðansjávarmyndunum sást vel hvað netið í fremri hluta trollsins er vel opið og jafn strekkt. Þar sáust líka ótrúlega hugmyndarík tilþrif Þorsksins við að koma sér undan trollinu með því að stinga sér undir og á milli rokkhopperhjólanna. Eftir að hafa séð sirkustilburði Þorsksins þá þéttum við og þyngdum lengjurnar okkar. Sú breyting skilaði sér greinilega í betri veiði. Nú erum við með á 88,8 metra Jaggernum sjö tonna lengju, 29 metra langa og 66 kílóa sjóþyngd á meterinn, sagði Kristján.

Við höfum haft nokkra sérstöðu í flotanum hvað varðar uppsetningu á grandarabúnaði trollanna. Við getum fyrirhafnalaust valið á milli tveggja grandaralengda þegar við köstum og enn bætt við þriðja möguleikanum á extra stuttum gröndurum með lítilli fyrirhöfn. Þetta gerir okkur kleift að halda alltaf góðri breidd í trollkjaftinum og velja  bestu grandaralengd sem hæfir dýpi og botnlagi hverju sinni.  Við getum valið á milli 38, 50 og 72ja faðma grandara á stóra trollið okkar og 36, 47 og 69 faðma grandara á litlu trollin okkar, sagði Kristján.

Thyborøn hleranir eru einstaklega sterkbyggðir og endingargóðir og hafa dugað okkur í 18 til 24 mánuði. Hlerarnir hafa verið algerlega viðhaldsfríir utan þess að skipta um 2 öftustu skóna með reglulegu millibili.  Þeir eru alltaf stöðugir og standa vel við allar aðstæður á toginu. Ég eyddi svolitlum tíma í að stilla þá vel til í upphafi með því að færa til í togvíragötunum framanvert og prufa mig áfram með stillingar á bakstroffum að aftan þar til þeir hölluðu temmilega inn að ofan og voru aðeins reistir upp að framan. Þannig stillta höfum við notað þessa týpu 14 í tæp 6 ár núna.

Thyborøn hlerarnir og Jagger trollin hafa reynst okkur afbragsvel við veiðarnar og tvímælalaust átt drjúgan þátt í þeim góða árangri sem við náðum á skipinu á síðasta ári, sagði Kristján E Gíslason að lokum.  

Please fill in the below details in order to view the requested content.