Gerast áskrifandi

Index: 0

Góður liðsauki til Hampiðjunnar

29.07.2015

Guðbjartur Þórarinsson og Einar Skaftason voru nýlega ráðnir í stjórnunarstöður hjá Hampiðjunni. Einar mun m.a. hafa með höndum að þróa ný togveiðarfæri og Guðbjartur verður sölu- og marksstjóri útgerðarvörudeildar Hampiðjunnar.

Einar er 39 ára, í sambúð og á eina dóttur. Hann er skipstjórnarmenntaður og árið 2011 útskrifaðist hann með BS gráðu í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Samhliða skipstjórnarnáminu lagði Einar stund á nám í veiðarfæragerð. Áður en Einar réðist til Hampiðjunnar starfaði hann sem stýrimaður á skipum Ramma hf. í Þorlákshöfn.
,,Mitt starf verður aðallega í að þróa, hanna og teikna togveiðarfæri og mesta áherslan um þessar mundir er lögð á Gloríutrollin þar sem mikill vöxtur er í þróun flottrolla fyrir uppsjávarveiðiskipin um allan heim,“ segir Einar Skaftason.

Guðbjartur er 49 ára, kvæntur og á þrjú börn. Hann er skipstjórnarmenntaður og með próf í veiðarfæragerð. Guðbjartur er með viðskiptafræðipróf frá Háskólanum á Bifröst og masterspróf í alþjóðaviðskiptum frá sama skóla. Guðbjartur vann hjá Hampiðjunni fyrir um 18 árum en þaðan lá leiðin til Ástralíu þar sem hann var skipstjóri á veiðum á búra og hokinhala við Tasmaníu og víðar. Þaðan lá leiðin til Marel þar sem Guðbjartur vann um átta ára skeið, m.a. sem framkvæmdastjóri Marel í Slóvakíu.
,,Ég mun starfa í veiðarfæradeild Hampiðjunnar og meðal þess sem ég mun einbeita mér sérstaklega að er markaðssetning og sala á toghlerum og togtaugum auk almennra rekstrarvara til útgerðarfyrirtækja,“ segir Guðbjartur Þórarinsson.

Please fill in the below details in order to view the requested content.