Gerast áskrifandi

Index: 0

Hækkandi rækjuverð eykur sölu á rækjutrollum

9.04.2015

Hækkandi rækjuverð eykur sölu á rækjutrollum

Nýlega var gengið frá sölu á tíu nýjum rækjutrollum frá Cosmos Trawl, dótturfélagi Hampiðjunnar í Danmörku, til tveggja norskra útgerðarfyrirtækja. Mikill hugur er í útgerðarmönnum norskra rækjutogara fyrir rækjuvertíðina í Barentshafi, sem hefst nú í vor, enda hefur verð á iðnaðarrækju aldrei verið hærra.

Að sögn Thorleif  Grønkjær, sölustjóra Cosmos Trawl, er það fátítt núorðið að svo stórar pantanir, sem tíu rækjutroll vissulega eru, berist svo að segja á sama tíma. Ástæðan að þessu sinni sé þó einfaldari en oft áður. Rækjuverð hafi hækkað gríðarlega og rætt sé um að meðalverð á iðnaðarrækju sé nú um 27 til 28 DKR/kg eða sem svarar til 540 til 560 ISK/kg. Þá séu horfur taldar á góðri rækjuveiði í Barentshafi í vor eftir að þorskveiðum lýkur.

Shrimp-IMG_1563

,,Við seldum útgerðarfyrirtækinu Havfisk í Álasundi þrjú rækjutroll fyrir nýsmíðina Gadus Njord í fyrra og þau reyndust svo vel að Havfisk pantaði sex troll fyrir tvö ný skip félagsins, sem fara til rækjuveiða í vor, en það eru skipin Gadus Poseidon og Gadus Neptun. Að auki barst okkur pöntun frá útgerð Arctic Swan í Álasundi um fjögur ný rækjutroll en öll þessi skip eru þannig útbúin að þau geta dregið þrjú troll samtímis,“ segir Grønkjær en þess má geta að Cosmos Trawl seldi allan veiðarfærabúnað í Arctic Swan þegar skipið var afhent sem nýsmíði árið 2002.

,,Síðan þau troll gengu úr sér hefur útgerðin notast við norskar eftirlíkingar,“ segir Grønkjær en þess má geta að trollin sex fyrir Havfisk verða afhent um páskaleytið en trollin fyrir Arctic Swan í lok aprílmánaðar. Auk trollanna selur Cosmos Trawl útgerðarfélögunum ýmsan annan búnað sem nauðsynlegur er fyrir rækjuveiðarnar.

New-shrimp-trawls780A7378-2

Stærð rækjutrollanna, sem seld eru nú, er um 3.000 möskvar en trollin sem Havfisk fékk fyrir Gadus Njord í fyrra voru 3.250 möskva. Grønkjær segir að trollopnunin á nýju trollunum sé um tíu metrar en það fari alveg eftir toghlerunum, sem notaðir verða, hvernig trollin hagi sér í togi.

,,Ég veit að Gadus Njord hefur notað 16-17m2 Injector toghlera og held að Gadus Neptune verði með Rock-hlera og Gadus Poseidon með Thyboron-hlera. Lengd fiskilínunnar (fishing line) er 76 metrar hjá Gadus Poseidon en 80 metrar hjá hinum tveimur,“ segir Thorleif  Grønkjær.

Please fill in the below details in order to view the requested content.