Gerast áskrifandi

Index: 0

Hafa góða reynslu af Gloríuflottrollunum

17.01.2019

,,Það hefur sennilega verið árið 1999 að við byrjuðum að nota Gloríutroll til veiða á uppsjávarfiski og við erum nú með fjögur mismunandi troll af þessarri gerð meðal okkar helstu veiðarfæra. Reynslan hefur verið mjög góð og veiðihæfnin gerist ekki betri.“

Þetta segir Tómas Kárason, annar skipstjóra uppsjávar- veiðiskipsins Beitis NK, en hann sendi Hampiðjumönnum kveðju fyrir jólin þar sem hann þakkaði fyrir samstarfið á sl. ári og Gloríu 2048 trollið sem hann sagði að notað hefði verið á makrílveiðum í Síldarsmugunni og á síldveiðum hér heima með mjög góðum árangri. Sagðist Tómas viss um að fleiri útgerðir myndu panta 2048 trollið á árinu 2019. Kveðja Tómasar gladdi Hampiðjumenn og það varð úr að ákveðið var að ræða betur við Tómas um reynsluna af notkun mismunandi Gloríuflottrolla.

,,Við byrjuðum á að nota Gloríu 2400 á kolmunnaveiðum. Trollið kom mjög vel út en upphaflega keypti Síldarvinnslan það sem tveggja báta troll fyrir Beiti og Börk NK.“

Tómas segir að næst hafi Gloría 1760 troll verið notað á makrílveiðum fyrir austan.

,,Trollið reyndist afbragðs vel. Höfuðlínuhæðin er góð og breiddin eða opnunin er eins og best verður á kosið. Allir, sem veitt hafa makríl þar sem síld er á svæðinu, vita að það getur verið erfitt að forðast að fá síld með makrílnum en með 1760 trollinu var það ekkert vandamál. Við losnuðum við síldina á grunnunum fyrir austan því trollið fór aldrei þangað niður þar sem síldin heldur sig,“ segir Tómas og víkur sögunni þá að 2048 trollinu.

,,Við notuðum Gloríu 2048 til makríl- og síldveiða í Síldarsmugunni og eins á síldveiðum fyrir vestan land.  Árangurinn kom strax í ljós í fyrsta hali  og veiðni þess í síldinni var með miklum ágætum. Ég veit ekki af hverju það stafar en sá grunur læðist að manni að 32 metra  möskvar fremst í trollinu eigi þátt í því,“ segir Tómas en auk trollanna þriggja, sem nefnd eru hér að framan, segir Tómas að áhöfnin hafi notað Gloríu 1408 troll til loðnu- og síldveiða með góðum árangri.

,,Eftir að hafa kynnst kostum 2048 trollsins á síldveiðum verður 1408 trollið bara notað til loðnuveiða þegar það á við,“ segir Tómas Kárason.

Helix þankaðlarnir

Um það hvort smærri möskvar fremst í trollunum skýri aflaaukninguna umfram önnur troll segist Einar Skaftason veiðarfærahönnuður  Hampiðjunnar, vita til þessa að menn innan flotans ræði þetta sín á milli.

,,Við teljum að þantæknin í Helix möskvunum í framhluta trollsins skýri þetta líka. Þankaðlar hafa það fram yfir hefðbunda kaðla að þeir titra miklu minna á toginu, þenja jafnframt trollið miklu betur út og mynda mun stærra trollop -og belgrými en hefðbundin troll. Það hefur þau áhrif að það kemur mun síður styggð að fisknum inni í trollinu. Þankaðlarnir eru hljóðlausir í sjónum, því þeir mynda ekki hljóðbylgjur frá sér inn í trollið vegna þess hve stöðugir þeir eru í drætti. Í öllum þremur Gloríutrollunum sem Tómas nefnir sérstaklega eru Helix kaðlar. 1760 metra trollið er með 40 metra langa möskva fremst, 2048 metra trollið í þessu tilviki er með 32 metra möskva fremst og 2400 metra trollið er með 64 metra möskva fremst,“ segir Einar Skaftason.

Please fill in the below details in order to view the requested content.