Gerast áskrifandi

Index: 0

Hampiðjan opnar söluskrifstofu í Murmansk

3.02.2017

Á dögunum opnaði Hampiðjan Rússland söluskrifstofu í Murmansk. Sergey Kiselev hefur verið ráðinn til að veita skrifstofunni forstöðu en hans helsta hlutverk verður að selja veiðarfæri frá Hampiðjunni og dótturfélögum til rússneskra útgerða og sjá um nauðsynlega þjónustu.

Söluskrifstofan er til húsa á besta stað í byggingu Murmansk Trawl Fleet (MTF) á hafnarsvæðinu en þar eru fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki með aðstöðu.

Sergey Kiselev er öllum hnútum kunnugur hvað varðar rússneska togaraútgerð. Hann starfaði í rúma þrjá áratugi sem veiðarfærastjóri (Trawl Master) um borð í rússneskum togurum, þar af lengi um borð í skipum MTF. Hlutverk veiðarfærastjórans er að hafa yfirumsjón með veiðarfærum og ákveða, í samráði við skipstjóra, hvaða veiðarfærum á að beita hverju sinni.

Sergey Kiselev, sem er rúmlega sextugur, lauk prófi frá sjómannaskóla árið 1972. Rúmum tíu árum síðar útskrifaðist hann frá Sjávarútvegsstofnun Archangelsk sem yfirveiðarfærastjóri. Í framhaldinu starfaði hann víðs vegar um heiminn og kynntist á þeim árum notkun flest allra togveiðarfæra. Sergey var þrjú ár í rússneska sjóhernum en lengst af sínum starfsferli, eða frá 1976 til 2015, starfaði hann hjá MTF. Þar af lengst sem veiðarfærastjóri.

Hampiðjan bindur miklar vonir við opnun söluskrifstofunnar í Murmansk og býður Sergey Kiselev velkominn til starfa.

Please fill in the below details in order to view the requested content.