Gerast áskrifandi

Index: 0

Heimsmet með DynIce Warp frá Hampiðjan Offshore

10.06.2021

Rannsóknarskipið R/V Kaimei, frá japönsku haf- og land rannsóknarstofnuninni Jamstec (e. Japan Agency for Marine-Earth Science and Technology), setti nýlega heimsmet þegar borað var í hafsbotninn á meira dýpi en áður hefur verið gert.

Til verksins var notaður sérhannaður bor sem var slakað niður á 8 km dýpi með DynIce Warp tógi frá Hampiðjunni Offshore. Það tók um tvær klukkustundir að slaka bornum niður á sjávarbotn þar sem boruð var 37 metra djúp hola í setlögin sem þar er að finna til að ná í borkjarna sem sýnir samsetningu setlaganna.  Setlögin eru svo skoðuð og rannsökuð til að öðlast þekkingu á áhrifum eldri jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara, svo sem Tsunami, sem riðið hafa yfir svæðið.

Borað var nálægt upprunastað hins öfluga jarðskjálfta sem reið yfir svæðið árið 2011, jarðskjálfta upp á 9,1. Flóðbylgjan frá þeim jarðskjálfta olli miklum búsifjum í Japan og eyðilagði meðal annars Fukishima kjarnorkuverið.

DynIce Warp tógið sem var notað til verksins er 12 km langt í einni ósplæstri lengd og var afhent Jamstec fyrir 6 árum síðan og hefur ofurtógið verið í mikilli notkun síðan þá og aðallega til svipaðra verkefna. R/V Kaimei er eitt af mörgum sjávarrannsóknarskipum í heiminum sem reiða sig á DynIce Warp en fjölmörg tóg sem eru 12 km löng DynIce Warp ofurtóg hafa verið framleidd og seld undanfarin ár.  Ástæðan fyrir því að 12 km eru valdir á rannsóknarskip er að dýpsta gjáin í heimshöfunum suðaustur af Japan, Challenger Deep í Mariana Trench, er 10.994 m djúp og mörg rannsóknarskip sem eru í djúpsjávarrannsóknum vilja ná niður á slíkt dýpi.   Ekki er hægt að nota stálvír því hann slitnar undan eigin þunga við um 6 km dýpi. DynIce Warp fyrir rannsóknarskip er hannað eilítið þyngra en vatn og því skiptir ekki máli hversu langt niður það fer.   Átakið þegar slakað er og híft fer eftir þyngd tækisins sem er notað en mesta átakið er að draga borinn upp úr borholunni eftir að borun er lokið.

DynIce Winch Warp var upprunalega hannað til að koma í stað stálvírs á fiskveiðiskipum. Það minnkar eyðslu á jarðefnaeldsneyti, endist lengur og minnkar hættu á slysum um borð.  Það er mest notaða tóg til sjávarrannsókna í heimi, einnig er það notað á dýpkunarskipum, á vindur og alls konar spil um allan heim.  Stærsti markaður fyrir DynIce Warp utan sjávarútvegs hefur verið í Asíu.

Hampiðjan Offshore er dótturfyrirtæki Hampiðjunnar og sem er sérhæft í þjónustu við aðrar greinar en sjávarútveg og fiskeldi. Aðalmarkaðir Hampiðjan Offshore eru sala á vörum til olíuiðnaðar, ofurstroffum fyrir uppsetningu á vindmyllum bæði á landi og úti á hafi og fyrirtækið rekur sölustarfsemi í Evrópu og er með umboðsmenn um allan heim.

Please fill in the below details in order to view the requested content.