Gerast áskrifandi

Index: 0

JAGGER Nýtt og gjörbreytt botntroll frá Hampiðjunni

10.10.2019

Ný útfærsla af  gjörbreyttu 88,4 metra Bacalaotrolli hefur gert það gott að undanförnu. Meðal þeirra sem notað hafa Bacalao troll um langt skeið, eru skipstjórar á nýjasta ísfisktogaranum Viðey RE, sem sjávarútvegsfyrirtækið Brim gerir út frá Reykjavík.  Það var því við hæfi að fá skipstjórana, þá Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli) og Kristján E. Gíslason (Kiddó), til samstarfs um að þróa  nýja og gjörbreytta botntrollið í samvinnu við veiðarfærameistara Hampiðjunnar.


,,Fyrsta Bacalao trollið fór um borð í frystitogarann Baldvin Þorsteinsson EA, í eigu Samherja á Akureyri árið 1992. Þetta eru  einfaldar og vel hannaðar tveggja byrða vörpur sem reynst hafa nokkuð vel á erfiðum togslóðum á Íslandsmiðum,“ segir Vernharður Hafliðason, netagerðarmeistari hjá Hampiðjunni, en hann upplýsir að fyrir um tveimur árum hafi menn byrjað að velta því fyrir sér hvort hægt væri   að gera aðeins betur, og engir hafi verið betur til þess fallnir að reyna hugmyndirnar við raunaðstæður en Elli og Kiddó á Viðey.

,,Það má segja að skriður hafi komist á málin fyrir um ári síðan. Við skoðuðum trollmódelið nokkrum sinnum í tilraunatanki og eftir það var trollið prufukeyrt um borð í Viðey RE.“ segir Vernharður.

,,Breytingarnar og endurbæturnar, sem við gerðum, felast í stuttu máli í því að við breyttum belgnum á trollinu, notum Advant net í trollið í stað hins hefðbundna Magnets Green og breikkuðum opnunina á trollinu. Með breytingunni á belgnum náum við auknu flæði, minni slaka og minni ánetjun. Við hönnunina leituðumst við sömuleiðis við að draga úr sliti á trollinu. Það kom okkur e.t.v. mest á óvart hve belgurinn og trollpokinn lyftust mikið frá botni. Með Advant netinu fengum við minna garnflatarmál og þar með minni togmótstöðu en þurftum reyndar að bæta við flotkúlum. Til að ná meiri breidd, sem skiptir miklu máli í botntrollinu, breyttum við netskurði á vængjum trollsins og notum stærri og opnari möskva fremst í trollinu. “ segir Vernharður Hafliðason.

Elli og Kiddó ljúka miklu lofsorði á samvinnuna við Hampiðjuna.
,,Við höfum notað Bacalaotroll frá því að við byrjuðum á Viðey. Eftir endurbæturnar er nýja trollið með meiri breidd en áður, samkvæmt myndatökum eru allir möskvar galopnir og vængir gleiðir við opið á trollinu. Höfuðlínuhæð er að jafnaði um 5 metrar eins og við stillum trollið. Við bættum við spólu í belginn og breyttum skurðinum á trollinu. Fyrir vikið erum við lausir við kryppuna á yfirbelgnum aftan við skverinn. Við erum búnir að nota trollið samfleytt í þrjá mánuði. Það fiskar miklu betur en gamla trollið og hefur lítið sem ekkert rifnað það sem af er og það er meiriháttar flott,“ segir Kristján E. Gíslason (Kiddó).

Að höfðu samráði við Ella og Kiddó var ákveðið að gefa trollinu nafnið JAGGER til minningar um Jón Ásbjörn Grétarsson trollhönnuð sem féll frá langt um aldur fram í árslok 2014, rétt áður en hann varð fimmtugur. Upphafsstafirnir í nafni Jóns voru JAG og nafnið er dregið af því.  
Jagger er þjált nafn með ákveðnum framburði og beygist vel á íslensku, er stutt og gott nafn og meðfærilegt fyrir önnur tungumál.

Please fill in the below details in order to view the requested content.