Gerast áskrifandi

Index: 0

Meira en 70 þátttakendur í tankferð Hampiðjunnar

22.12.2015

,,Þátttakendur voru óvenju margir að þessu sinni eða rúmlega 70 talsins frá tíu þjóðlöndum. Það er greinilega mjög mikill áhugi á helstu framleiðsluvörum Hampiðjunnar og ferðin heppnaðist eins og best verður á kosið.“
Þetta segir Haraldur Árnason, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni.

Starfsmenn hönnunar- og veiðarfæradeildar fyrirtækisins höfðu veg og vanda af því að skipuleggja þriggja daga kynningarferð í tilraunatankinn í Norðursjávarmiðstöðinni í Hirtshals í Damörku með tilheyrandi dagskrá. Var ferðin farin fyrir skömmu en ferðir sem þessi eru árlegur viðburður í kynningarstarfsemi Hampiðjunnar.

,,Í ferðinni gafst þátttakendum kostur á að kynna sér helstu nýjungar Hampiðjunnar á sviði veiðarfæragerðar. Á annan tug  veiðarfæralíkana voru prófuð með tilheyrandi breytingum á stillingum. All mörg troll vöktu sérstaka athygli og má þar nefna ný kolmunna- og makríltroll ásamt botntrollum. Samanburður á þverneti (T90) og hinum hefðbundna tígulmöskva var skoðaður og í framhaldi af því var fluttur fyrirlestur um samanburðarrannsóknir á kjörhæfni trollpoka með DynIce Quickline fellilínum.

Einnig voru gerðar tilraunir með humartroll frá netaverkstæði Skinneyjar -Þinganess á Höfn í Hornafirði​ sem og á fiskitrolli frá Fjarðaneti á Akureyri,“ segir Haraldur en hann getur þess að meðal þátttakenda hafi verið fulltrúar viðskiptavina Hampiðjunnar í Danmörku, Færeyjum, Svíþjóð, Rússlandi, Chile, Litháen, Bandaríkjunum, á Írlandi og Grænlandi auk fulltrúa íslenskra fyrirtækja. Þá hafi einnig sérfræðingar frá Thyborøn hleraframleiðandanum, Marporti og Naust Marine tekið þátt og gert grein fyrir helstu nýjungum sem þessi fyrirtæki hafa fram að færa.

Please fill in the below details in order to view the requested content.