Gerast áskrifandi

Index: 0

Mikil ánægja með nýju trollpokana frá Hampiðjunni

1.04.2015

Frá því í byrjun ársins hefur áhöfnin á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK notað nýja gerð af fjögurra byrða trollpoka frá Hampiðjunni með mjög góðum árangri. Eiríkur Jónsson skipstjóri segir í samtali við heimasíðuna að nýju trollpokarnir séu mun meðfærilegri en eldri gerðir poka, þeir dragi úr slysahættu á dekki og hann sé sannfærður um að þeir fari mun betur með aflann.

Í trollpokunum er nýtt trollpokaefni, sem nefnist Magnet Compact, og er áhöfnin á Sturlaugi trúlega sú fyrsta til að nota það við veiðar á Íslandsmiðum. Eiríkur skipstjóri segist vera mjög ánægður með árangurinn fram að þessu.

,,Þetta efni er mun grennra en það sem notað hefur verið fram að þessu. Það er því léttara og auðveldara í meðhöndlun en við höfum átt að venjast. Þá er Compact efnið, sem kynnt var á sjávarútvegssýningunni í haust, sömuleiðis þéttara og stífara og það veldur því að möskvalagið helst betur,“ segir Eiríkur en að hans sögn er sjálfur trollpokinn allt öðruvísi uppsettur en aðrir pokar. Fiskurinn rennur því mun betur úr pokum en áður, undir lágmarks álagi, niður í fiskmóttökuna.

,,Hann líkist í grunninn hefðbundnum 135mm karfapoka en munurinn er sá að hann er fjögurra byrða og er felldur á hinar sérlega vel hönnuðu DynIce Quicklínur.** Það fer mun minna fyrir pokanum á dekki vegna þess að færri möskvar eru teknir í svokallað ,,leisi“. Venjulega slógum við stroffinu tvisvar utan um pokann en nfú er gilsunum einfaldlega húkkað í stroffurnar tvær, sem eru tveggja metra langar, sitthvoru megin á DynIce Quicklínum pokans. Það er alltaf hætta á því að menn verði fyrir hnjaski þegar pokinn veltist um í skutrennunni í vondum veðrum og miklum sjógangi en með tilkomu þessa nýja poka og DynIce línanna hefur stórlega dregið úr þeirri hættu,“ segir Eiríkur Jónsson.

** DynIce Quicklínur Hampiðjunnar eru í einkaleyfisferli á heimsvísu (Patent Pending).

Please fill in the below details in order to view the requested content.