Gerast áskrifandi

Index: 0

Mikil ánægja með skálmapokann

20.06.2019

,,Við höfum notað nýja skálmapokann frá Hampiðjunni frá því í vor og reynslan af notkun pokans er einstaklega góð. Fiskurinn fer spriklandi niður í móttökuna og þar er strax gert að honum. Gæði aflans hafa aukist til muna og í vinnslunni er okkur sagt að það sjáist ekki munur á fiski frá okkur og línubátunum.“


Þetta segir Höskuldur Bragason, skipstjóri á Sirrý ÍS frá Bolungarvík, en hann og áhöfn Sirrýjar hafa notað fjögurra byrða skálmapoka, sem felldur er á svokallaðar DynIce ,,kvikklínur“ frá Hampiðjunni. Trollið er af gerðinni Gulltoppur og var það sett upp af Snorra Sigurhjartarsyni, netagerðarmeistara og rekstrarstjóra Hampiðjunnar á Ísafirði og hans mönnum. Botntroll af þessari gerð hafa verið notuð um borð í vestfirskum skipum um áratugaskeið og reynst afskaplega vel.Skálmapokinn, sem Sirrý ÍS er með er úr 6,2 mm tvöföldu gulu Magnet neti með 155 mm möskvastærð. Pokinn er með níu metra langar skálmar og að sögn Höskuldar er hann mjög auðveldur að vinna með.


Mun betri kjörhæfni

,,Við vorum áður með einn sekk og það segir sig sjálft að með því að nota skálmapokann erum við að draga úr þrýstingi á fisknum.
Felling pokans inn á kvikklínurnar veldur því að átakið á pokann á togi og í hífingu jafnast mun betur út og möskvar pokans eru betur opnir en menn hafa átt að venjast á hefðbundnum tveggja byrða skálmapokum,“ segir Höskuldur en í máli hans kemur fram að með helmingi færri möskvum í skálmapokunum sé kjörhæfnin mun betri en ella.

,,Þetta sjáum við vel á því að karfi, sem annars myndi veiðast sem aukaafli, skilst miklu betur út. Möskvarnir í skálmapokanum eru það vel opnir að dregið hefur verulega úr hættunni á að fá þorsk sem er útstunginn af karfagöddum.“DynIce Kvikklínurnar leysa vandann

Höskuldur segir það sína reynslu að það fari illa með fisk, sérstaklega í brælum, þegar verið sé að slá stroffum á pokann og hífa. ,,Kvikklínurnar“ leysi þann vanda því hífileggir eða beisli úr sama efni séu einfaldlega settar á línurnar og aflinn hífður inn á þeim. Með þessu lagi er mun minni slysahætta á trolldekkinu því strákarnir þurfa einungis að krækja gilsinum í beislin nánast án þess að stíga út í trollrennuna.

Pokasjáin nákvæmari en aflanemarnir

,,Það má eiginlega segja að pokasjáin leysi orðið aflanemana af hólmi. Ég sé nákvæmlega hve mikið af fiski kemur aftur í skálmarnar. Við reynum að haga holunum í samræmi við blóðgunarstöðuna. Það er rými fyrir sjö tonn af fiski í blóðgunarkari og við gætum þess að halda okkur innan skilgreindra marka,“ segir Höskuldur en hann segir að það sé mun léttara og einfaldara að losa fiskinn úr nýju skálmapokunum en hefðbundnum skálmapokum.


Þjónustulundin gerist örugglega ekki meiri

Höskuldur leggur áherslu á að það skipti miklu máli að hafa gott aðgengi að netagerðarmönnum sem þekki til aðstæðna á Vestfjarðamiðum.
,,Snorri er alveg einstakur. Maður getur rætt málin við hann og aðra starfsmenn Hampiðjunnar á Ísafirði og þeir leysa málin. Þjónustulundin gerist örugglega ekki meiri. Svo góður er andinn að maður notar hvert tækifæri sem gefst, þegar maður er í landi, til að kíkja í kaffi til Snorra og félaga,“ segir Höskuldur Bragason.

Please fill in the below details in order to view the requested content.