Gerast áskrifandi

Index: 0

Mjög góð reynsla af T90 trollpokanum með DynIce kvikklínunum

5.03.2019

,,Reynslan af notkun T90 makrílpokans, sem felldur er á DynIce kvikklínurnar, er mjög góð og það á jafnt við um veiðar á makríl og síld. Okkar reynsla er sú að fiskurinn gengur mun hraðar aftur í trollpokann og lifir mun lengur í þessum poka en í öðrum gerðum og það hlýtur að skila sér í betra og ferskara hráefni.“


Þetta segir Hálfdán Hálfdánarson, sem er skipstjóri á uppsjávarveiðiskipinu Berki NK á móti Hjörvari Hjálmarssyni. Báðir hafa þeir tekið þátt í að þróa T90 pokann með DynIce kvikklínukerfinu með öðrum starfsmönnum Síldarvinnslunnar og sérfræðingum Fjarðanets á Akureyri sem nú er hluti Hampiðjunnar Ísland ehf.

T90 makrílpokinn sem felldur er á DynIce kvikklínurnar kom fyrst fram 2016 og fór þá til reynslu um borð í Beiti NK sama sumar. Um var að ræða þróunar- og tilraunaverkefni Fjarðanets og Síldarvinnslunnar og voru gerðar ýmsar breytingar og lagfæringar á pokanum eftir að makrílvertíðinni lauk þá um haustið. Ákveðið var að tilraununum yrði framhaldið um borð í Berki NK ári síðar. Skemmst er frá því að segja að reynslan hefur verið ákaflega góð að sögn skipstjóranna. Neðansjávarmyndir af trollpokanum á makrílveiðum leiddu ýmislegt nýtt og spennandi í ljós og auðvelduðu nauðsynlegar breytingar.


Meðal kosta T90 pokans er að möskvarnir haldast alltaf vel opnir. Hálfdán segir að þýði að pokinn hleypi mjög vel í gegnum sig og fiskurinn gangi hraðar aftur í pokann. Þá eigi smáfiskur greiðari leið út.

,,Það er gott streymi í pokanum og dæling gengur mjög vel. Mesti munurinn sem við sjáum, er að fiskurinn lifir mun lengur í þessum poka og þótt ég hafi ekki staðfestingu á því frá vinnslunni þá hlýtur það að skila sér í ferskara hráefni og auknum gæðum,“ segir Hálfdán Hálfdánarson.

Þess má geta að T90 makrílpokinn með DynIce kvikklínukerfinu er nú einnig í notkun um borð í Sigurði VE og er þar notaður á makríl- og síldveiðum. Beitir NK er einnig með T90 poka en sá er ekki felldur á DynIce kvikklínur að sögn Tómasar Kárasonar, sem er skipstjóri á móti Sturlu Þórðarsyni. Tómas hefur annars sömu reynslu og skipstjórarnir á Berki NK af T90 pokanum. Áberandi sé hve pokinn hleypi vel í gegnum sig vegna þess að möskvarnir haldist alltaf opnir.

Please fill in the below details in order to view the requested content.