Gerast áskrifandi

Index: 0

Mjög mikilvægur vettvangur kynningar og skoðanaskipta

14.09.2018

Dagana 28. til 30. nóvember nk. efnir Hampiðjan til hinnar árlegu kynningar félagsins á framleiðsluvörum sínum og dótturfyrirtækja í tilraunatanknum í Norðursjávarmiðstöðinni í Hirtshals í Danmörku. Ferð sem þessi er árlegur þáttur í starfsemi Hampiðjunnar en markmiðið er að sýna skipstjórnarmönnum hvernig togveiðarfæri fara í sjó við sem raunverulegastar aðstæður. Ferðirnar eru einnig kjörinn vettvangur skoðanaskipta um allt það sem lítur að kjörhæfni togveiðarfæra og nýjunga í fiskleitartækni.

Það er Jón Oddur Davíðsson, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni, sem hefur veg og vanda af skipulagningu ferðarinnar og hann segist búast við að fjöldi þátttakenda verði svipaður og í fyrra eða um 50 manns.
„Þessar ferðir hafa reynst okkur, og ekki síður viðskiptavinum okkar, mjög vel. Fyrsta skipulagða tankferðin var árið 1979 en þá var farið í tilraunatankinn í Hull í Englandi. Þar á eftir komu ferðir í tankinn í Hirtshals á meðan sjávarútvegssýningin í Bella Center var haldin frá 1980 til 1990. Þessar ferðir voru á þriggja ára fresti en við fórum einnig með minni hópa til Hirtshals þess á milli. Frá 1990 hefur verið farið á hverju ári að því undanskildum einu til tveimur árum sem hafa fallið úr,“ segir Jón Oddur.

Nýjungar í botn- og flottrollum

,,Eins og undanfarin ár erum við að sýna það nýjasta í veiðarfæraþróun Hampiðjunnar í botn- og flottrollsveiðum.
Þar á meðal eru botntrollin frá Fjarðaneti. Í því sambandi má nefna Hampiðjan Wide trollið, H Toppinn og Hemmer trollið. Einnig munum við sýna ýmsar gerðir af botn- og flottrollspokum með T90 tækninni og DynIce Quick línum og það nýjasta á sviði hleragerðar hjá Thyborøn Trawldoors. Á flottrollssviðinu verður fjallað um Gloríu flottroll Hampiðjunnar til  síldar-, makríl- og kolmunnaveiða sem hafa reynst afar vel á veiðum á uppsjávarfiski á undanförnum árum,“ segir Jón Oddur en hann nefnir einnig að ferðirnar til Hirtshals nýtist mönnum líka til kynna sér nýjungar í fiskleitartækni, veiðarfæranemum og veiðarfæratækni.
,,Við höfum lagt áherslu á að fá fyrirlesara til kynningar á nýjungum á þessu sviði. Sú dagskrá er enn í mótun en verður gerð kunn á næstunni.“

Hvert telur þú vera helsta gagn af ferðum sem þessari?

,,Auk þess að fá allar upplýsingar um það sem við erum að þróa og endurbæta þá geta menn skoðað hvernig breytingar á stillingum hafa áhrif á trollið í sjónum. Þá er er ekki síður mikilvægt fyrir  okkur, starfsmenn Hampiðjunnar, að fá umsagnir um það hvernig við erum að standa okkur á þessu mikilvæga sviði sjávarútvegs. Hinn félagslegi þáttur  hefur einnig mikið að segja, bæði hvað varðar okkur og viðskiptavini okkar. Þarna hittast menn og konur af ýmsum þjóðernum hvaðanæva að úr heiminum og njóta þess að vera saman og ræða um veiðar og veiðarfæri sem er þeirra lifibrauð í daglega lífinu. Í tankferðum höfum við oft séð fiskimenn frá ólíkum heimshlutum kynnast, deila reynslu sinni og fá í staðinn upplýsingar sem þeir geta nýtt í sínu starfi,“ segir Jón Oddur Davíðsson.

Please fill in the below details in order to view the requested content.