Gerast áskrifandi

Index: 0

Netaverkstæði Hampiðjunnar opnað í Eyjum

11.03.2016

Fyrr í þessum mánuði var nýtt netaverkstæði Hampiðjunnar tekið í notkun í Vestmannaeyjum. Verkstæðið er til húsa að Kleifum 6 á Eiðinu og þar er jafnframt starfrækt verslun. Húsnæðið er nú tæpir 400 fermetrar að flatarmáli en eftir stækkun, sem ráðgerð er í sumar, verður það tæplega 1.100 fermetrar.

Hampiðjan hefur lengi þjónustað útgerðir skipa í gegnum ýmsar netagerðir í Vestmannnaeyjum og nú síðast var félagið í samstarfi við netaverkstæðið Net ehf. Það var selt sl. haust og því var ákveðið að opna sérstaka starfsstöð í Vestmannaeyjum undir merkjum Hampiðjunnar.

Guðbjartur, Ingi Freyr og Eiríkur í fremri röð og Matthias Sveinsson og Guðmundur Guðlaugsson starfsmenn Os ehf í Vestmannaeyjum í aftari röð.

Að sögn Guðbjarts Þórarinssonar, markaðs- og sölustjóra hjá veiðarfæradeild Hampiðjunnar, hefur húsnæðið að Kleifum lengi verið notað sem netaverkstæði því þar var um árabil netagerð sem Sigurður Ingi Ingólfsson netagerðarmeistari starfrækti.

,,Okkur vantar hins vegar meira rými fyrir starfsemina. Það er búið að teikna stækkunina og verkið verður boðið út fljótlega. Ef allt gengur að óskum þá verður stækkun hússins lokið fyrir lok ágústmánaðar nk.,“ segir Guðbjartur Þórarinsson.

Starfsmenn netaverkstæðis Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum verða þrír til að byrja með en með haustinu er reiknað með að starfsmannafjöldinn verði sex til sjö manns. Rekstrarstjóri er Eyjamaðurinn Ingi Freyr Ágústsson netagerðarmeistari en að hans sögn verður sérstök áhersla lögð á að þjónusta nóta– og togskipaflota Eyjamanna sem best.

,,Héðan er hátt í helmingur uppsjávarskipa landsmanna gerður út og margar útgerðir þegar í viðskiptum við Hampiðjuna, vegna flottrollsveiðanna sem skipin stunda stærstan hluta ársins. Þá höfum við mikinn hug á því að veita alhliða þjónustu hvað varðar viðgerðir, viðhald og uppsetningu á loðnu- og síldarnótum samhliða því að bjóða allar almennar rekstrarvörur sem flotinn þarf á að halda við veiðarnar“ segir Ingi Freyr Ágústsson að lokum.

http://www.vestmannaeyjar.is

http://www.eyjafrettir.is

Please fill in the below details in order to view the requested content.