Gerast áskrifandi

Index: 0

Nýja 1760-4Wide Gloríuflottrollið vekur verðskuldaða athygli

20.08.2015

Mjög góður árangur hefur náðst á makrílveiðum með nýrri gerð Gloríu flottrolls frá Hampiðjunni. Nýja trollið nefnist 1760-4Wide og var það notað af fjórum uppsjávarveiðiskipum í fyrra. Fréttir af aflasæld þess hafa síðan orðið til þess að þrjú skip til viðbótar hafa notað 1760- 4Wide Gloríutrollið í sumar og hefur árangurinn leitt til fjölda fyrirspurna frá erlendum útgerðum sem stunda makrílveiðar í Norður-Atlantshafi.

Að sögn Haraldar Árnasonar, markaðs- og sölustjóra veiðarfæra hjá Hampiðjunni, voru það skipin Ingunn AK, sem nú heitir Ísleifur VE, Beitir NK, Sigurður VE og Vilhelm Þorsteinsson EA sem riðu á vaðið og notuðu þessa nýju gerð á veiðum í fyrra. Í ár er svo búið að selja trollið til notkunar um borð í Venusi NS, Berki NK og Polar Amaroq GR. .  
,,Helstu kostir trollsins eru þeir að hægt er að stilla það með meiri breidd en gengur og gerist eða einn á móti fjórum (1:4). Þá er opnunin 45-50 m á hæð og 200-210 m eru á milli vængenda.. Það má líka mjög auðveldlega breyta opnun trollsins með lóðum og lengri gröndurum, t.d. þegar síldveiðar eru stundaðar á meira dýpi þegar  lóðrétta opnunin er mikilvægari en breiddin,“ segir Haraldur en hann vekur athygli á því að sömuleiðis hafi belg trollsins verið breytt, hann lengdur og víkkaður til að bera meiri afla.

Hefur einnig sannað sig á síldveiðum
,,Þetta er ótvíræður kostur, t.d á síldveiðum þegar farið er með trollið í gegnum stórar torfur. Þá þarf að vera rými fyrir það mikla magn sem kemur inn. Nýja trollið hefur sannað ágæti sitt  svo um munar og nokkur skipanna notuðu trollið í fyrra á síldveiðum með góðum árangri.“

Haraldur segir að með tilkomu þessarar miklu breiddar hafi komið meira af hreinum makríl í trollið og minna af meðafla.
,,Auðvitað getur verið misjafnt hve mikið af síld kemur með makrílnum sem meðafli en hugmyndin er sú að stilla trollið þannig að opnun þess sé lítil en með mikilli breidd milli vængenda til að ná makrílnum sem liggur í lögum ofarlega í sjónum. Segja má að forveri 1760-4Wide hafi verið Gloría 1600 en í því trolli eru hlutföllin 1:3. Það er athyglisvert að þrátt fyrir að breiddin á nýja trollinu sé meiri hefur togmótstaðan ekki aukist. Hún er nánast sú sama. Þess ber reyndar að geta að Gloríu 1600 trollið hefur líka reynst mjög vel á þessum veiðum í ár sem fyrri ár enda það troll enn í notkun um borð í mörgum skipum,“ segir Haraldur.

Trollhermir notaður við hönnunina
Við hönnun nýja flottrollsins var notast við svokallaðan trollhermi sem Hampiðjan hefur þróað í góðu samstarfi við verkfræðideild Háskóla Íslands í nokkur ár. Þar er leitast við að fá sem best flæði í gegnum trollið og það er sömuleiðis hannað þannig að virkni Helix, þankaðalsins nýtist sem best.

,,Það sást best í tilraunatankinum í Hirtshals í desember síðastliðnum hversu vel Helix þankaðallinn virkaði. Þegar gamli  PE/PA kaðallinn er borinn saman við seinustu útfærslu Helix kaðalsins þá er ummálið inni í trollinu 33% meira með Helix kaðlinum því hann þenur trollið meira í sundur alla leið aftur í belg. Sömuleiðis veldur Helix kaðallinn því að minni hreyfing er á netmöskvunum í trollinu og það dregur úr mótstöðunni.“
Haraldur segir að þótt Hampiðjan hafi þróað og framleitt nýja trollið þá megi líta á alla veiðarfæragerð sem samstarfsverkefni margra aðila.
,,Eins og svo oft áður við hönnun á nýju veiðarfæri fór saman hugvit hönnuða Hampiðjunnar í nánu samstarfi við útgerðamenn og skipstjóra sem stunda þessar veiðar. Þeirra hugmyndir og þarfir voru notaðar við að þróa betra og öflugra veiðarfæri og það hefur líkt og svo oft áður svo sannarlega heppnast vel,“ segir Haraldur Árnason.

Please fill in the below details in order to view the requested content.