Gerast áskrifandi

Index: 0

Nýja 3072 m Glorían svínvirkaði í dreifðum úthafskarfa

16.06.2016

,,Að sögn skipstjórans svínvirkaði nýja 3072 m Gloríu úthafskarfatrollið, sérstaklega í dreifðum fiski, þá fékk hann mun meira en aðrir á svæðinu. Það kom áhöfninni skemmtilega á óvart hve vel þeim gekk að eiga við þetta stóra veiðarfæri í brælum og hve létt var að snúa skipinu með það úti. Reyndar var það svo að það var mjög góð veiði allan þennan fyrsta túr togarans á Reykjaneshrygginn og reyndar var veiðin svo mikil, að stundum var skipið meira á reki þessa daga en á veiðum.“

Þetta segir Aðalsteinn Snæbjörnsson, verkstjóri hjá netaverkstæði Hampiðjunnar í Reykjavík, en hann kom í land fyrir sjómannadaginn eftir að hafa slegist í för með áhöfninni á hinum nýja og glæsilega frystitogara Mark frá Rostock í Þýskalandi.

Togarinn var þá í sínum fyrsta túr á úthafskarfaveiðum á Reykjaneshryggnum en við veiðarnar var notað 3.072 metra Gloríuflottroll frá Hampiðjunni með tilheyrandi poka. Fyrir átti útgerðin 15 fermetra Thyborøn toghlera sem notaðir voru með 300 metra löngum gröndurum. Aðalsteinn fór um borð úti á Reykjaneshryggnum 15. maí sl. og var áhöfninni innan handar í 15 daga við að ná tökum á notkun veiðarfæranna.

,,Það má heita að allt hafi gengið eins og í sögu. Reyndar var þetta í fyrsta skipti sem karfi var unninn í þessu magni um borð og öðrum þræði var því verið að prufukeyra þá vinnslu. Annars hefði allt verið keyrt miðað við full afköst sem miðast við 100 tonna frystigetu á afurðum á sólarhring,“ segir Aðalsteinn.

Nýjasti togari þýska flotans
Mark ROS 777 er nýjasta og glæsilegasta skip þýska fiskiskipaflotans. Skipið var smíðað í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og afhent eigandanum, Parlevliet & Van der Plas group í júní 2015. Við það tækifæri gaf Angela Merkel, kanslari Þýskalands, því nafn.

Skipið er 94 metra langt og 16 metra breitt. Í því eru íbúðir fyrir 34 manna áhöfn auk tveggja sjúkraklefa. Aðalvél er 4.000 kW og er hún af gerðinni MAK. Allt vindukerfið er rafknúið og er það frá Ibercia.

,,Hönnun skipsins tekur mið af því að gera það hagkvæmt í rekstri og það eyðir ótrúlega lítilli olíu miðað við eldri skip. Í þessu sambandi má nefna að skrúfan er mjög stór og hún snýst aðeins 108 snúninga á mínútu. Þá er gert ráð fyrir löngu úthaldi því frystigeymslurnar rúma 1.200 tonn af frystum afurðum,“ segir Aðalsteinn Snæbjörnsson.

Please fill in the below details in order to view the requested content.