Gerast áskrifandi

Index: 0

Nýjungar frá Hampiðjunni og dótturfyrirtækjum á DanFish

2.10.2015

Dótturfyrirtæki Hampiðjunnar í Danmörku, Cosmos Trawl og Nordsøtrawl, verða bæði meðal þátttakenda á DanFish International sjávarútvegssýningunni í Álaborg að þessu sinni en þar munu þau kynna starfsemi sína og ýmsar nýjungar sem m.a. eru frá Hampiðjunni.

DanFish International verður haldin dagana 7. til 9. október nk. Skráðir þátttakendur, fyrirtæki og stofnanir eru tæplega 300 talsins og þar af munu um 15 aðilar taka þátt í DanAqua fiskeldissýningunni sem haldin verður samhliða DanFish International.

Að sögn Haraldar Árnasonar, framkvæmdastjóra Cosmos Trawl, verða Cosmos Trawl og Nordsøtrawl með sameiginlegan sýningarbás í sýningarhöll D og er hann númer 884. Haraldur segir DanFish, sem haldin er á tveggja ára fresti, vera eina af stærstu sjávarútvegssýningum heims og það sé mikilvægt að kynna þar framleiðsluvörur Hampiðjunnar og dótturfyrirtækja, jafnt með tilliti til heimamarkaðarins og hins alþjóðlega markaðar.

,,Okkur hefur gengið mjög vel að selja DynIce togtaugar og DynIce Data höfuðlínukapalinn, jafnt á Norðurlöndunum sem og á alþjóðavettvangi, og í Álaborg munum við fylgja því eftir með kynningum á margs konar nýjungum í gerð veiðarfæra. Við munum m.a. standa fyrir kynningarferð í tilraunatankinn í Hirtshals síðasta dag sýningarinnar og þar verða sýndar nýjustu tegundir veiðarfæra og virkni fjórðu kynslóðar Helix þankaðalsins sem náð hefur miklum vinsældum.

,,Það hefur gengið mjög vel á síðustu sýningum að ná til mikils fjölda gesta víðs vegar að úr heiminum og líkt og fyrr eru þeir velkomnir til okkar á sýningarbásinn og skoða það sem Hampiðjan og dótturfyrirtæki hennar hafa upp á að bjóða,“ segir Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Cosmos Trawl.

Please fill in the below details in order to view the requested content.