Gerast áskrifandi

Index: 0

Nýtt netaverkstæði Cosmos Trawl í byggingu í Skagen

20.03.2024

Cosmos Trawl, dótturfélag Hampiðjunnar í Danmörku, hefur hafið byggingu á nýju og fullkomnu 4.800 m2 netaverkstæði í Skagen til að sinna síaukinni þörf fyrir viðgerðir á flottrollum.

Nýja netaverkstæðið verður vandlega búið tækjum og verður eitt hið tæknilegasta og fullkomnasta sem völ er á. Það mun auka möguleika á að þjónusta skip sem koma til hafnar í Skagen en þar er ein stærsta uppsjávarhöfn í Evrópu.

Meðal helstu kosta byggingarinnar er staðsetning hennar við hafnarkantinn, sem gerir það kleift að spóla flottrollum beint í og úr skipum sem liggja við bryggjuna. Netaverkstæðið er búið sex stórum flottrollstromlum á gólfinu og í lofti þess, sem er níu metra hátt, eru níu blakkir og kranar. Allur þessi búnaður flýtir fyrir framleiðslu og viðgerðum á trollum og trollpokum og felur því í sér mikla hagræðingu hjá fyrirtækinu.

Þess má geta að Hampiðjan hefur undanfarna áratugi hannað og framleitt allan eigin tækjabúnað; vindur, tromlur og blakkir, í Litháen fyrir eigin netaverkstæði um allan heim.

Michael Lassen, framkvæmdastjóri Cosmos Trawl, segist bjartsýnn á að nýtt húsnæði muni hafa mikil jákvæð áhrif á starfsemina. “Byggingin er mun stærri og betur tækjum búin en sú sem við erum með núna hér í Skagen. Fyrir utan betri aðstöðu fyrir starfsfólkið þá getum við framleitt og gert við stærri veiðarfæri og þar með auðveldar þjónustað stærri skip en áður. Það rímar vel við þau áform sem við höfum um vöxt fyrirtækisins til framtíðar. “

Framkvæmdir við húsið ganga vel og ef veður hamlar ekki þá ætti það að vera tilbúið til notkunar um mitt næsta sumar. Bygging netaverkstæðisins markar þáttaskil hjá fyrirtækinu því afar góð staðsetning þess og fullkominn búnaður mun stuðla að áframhaldandi vexti og velgengni Cosmos í Danmörku.

Myndir: Teikning af endanlegu útliti hússins og ljósmynd af byggingunni. 

Please fill in the below details in order to view the requested content.