Gerast áskrifandi

Index: 0

Nýtt nótahótel nánast uppbókað næstu tíu árin

22.11.2016

Á dögunum var nýtt 800 fermetra nótahótel Cosmos Trawl, dótturfyrirtækis Hampiðjunnar í Danmörku, formlega opnað. Í húsinu er rými fyrir átta nætur af stærstu gerð og þegar er búið að leigja nást allt geymslurýmið næstu tíu árin.


,,Þetta er framtíðin. Útgerðarmenn vilja geyma þessi verðmætu  veiðarfæri við bestu aðstæður innandyra, varin fyrir veðri og vindum og einkum  sólarljósinu. Það var fyrir áeggjan einna sex útgerðarmanna, sem komu að máli við okkur, að við réðumst í þessa framkvæmd,“ segir Haraldur Árnason, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Cosmos Trawl. Óhætt er að taka undir með Haraldi og útgerðarmönnunum að verulegir fjármunir eru í húfi því ný hringnót af stærstu gerð kostar um 80 til 100 milljónir íslenskra króna.

Að sögn Haralds er nótahótelið í nýrri viðbyggingu við enda veiðarfæraverkstæðis Cosmos Trawl í Hirtshals. Í húsinu eru átta 285 rúmmetra geymslurými og rúmar því hvert um sig nætur af allra stærstu gerð. Sjö af þessum átta geymslurýmum hafa nú þegar verið leigð til næstu tíu ára.,,Nýja nótahótelið er mjög vel tækjum búið. Við settum upp tvo brúarkrana og skiptum um allar gömlu blakkirnar á veiðarfæraverkstæðinu. Nú getum við tekið beint við nótum frá skipi, gert við þær á verkstæðinu og þaðan fara þær beint inn á nótahótelið,“ segir Haraldur.

Sem fyrr segir er það mat Hampiðjumanna að framtíðin felist m.a. í byggingu nótahótela líkt og gert var í Hirtshals.

,,Fjarðanet, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar mun senn ráðast í  byggingu nýs netaverkstæðis í Neskaupstað og þar er áætlað að nótahótel, sem rúmar 20-24 nætur, verði reist samhliða byggingu verkstæðisins,“ segir Haraldur Árnason.

Please fill in the below details in order to view the requested content.