Gerast áskrifandi

Index: 0

Ofurtaug frá Hampiðjunni notuð til að endurheimta annan mótorinn sem kom Apollo 11 til tunglsins

7.11.2013

Ofurtaug frá Hampiðjunni notuð til að endurheimta annan mótorinn sem kom Apollo 11 til tunglsins

Tæpum 44 árum eftir að Neil Armstrong steig fyrstur manna á tunglið og markaði þar með ein merkustu tímamót í mannkynssögunni fram að þessu, var öðrum af mótorunum úr Saturn V eldflauginni, sem notuð var til að koma geimfarinu Apollo 11 frá jörðu, bjargað af hafsbotni á 4,6 kílómetra dýpi við Bermúdaeyjar. Það þykir e.t.v. ekki merkur áfangi í ljósi þess mikla afreks sem áhöfn Apollo 11 og NASA unnu þann 20. júlí 1969 en hvað sem því líður þá hefði það þótt óhugsandi fyrir ekki svo mörgum árum að hægt væri að hífa svo þungan hlut af hafsbotni á jafn miklu dýpi og raun ber vitni.

Það var áhöfnin á norska björgunar- og djúphafsvinnuskipinu Seabed Worker sem náði mótornum úr Saturn V eldflauginni af hafsbotni og gerðist það í mars sl. Til verksins var notuð 44 mm DynIce togtaug  sem framleidd var hjá dótturfyrirtæki Hampiðjunnar í Litháen (Hampiðjan Baltic), og annar sérhæfður neðansjávarbúnaður sem notaður var til að koma böndum á mótorinn.

Seabed Worker er í eigu Swire Seabed í Björgvin í Noregi og var skipið, sem er sérhannað til aðgerða og björgunar verðmæta á mjög miklu dýpi, smíðað árið 2009. Það er 88 m langt og 16 m breitt, útbúið með tveimur krönum með 50 og 100 tonna lyftigetu. Aðstaða er fyrir alls 66 skipverja. Meðal annarra björgunarafreka áhafnarinnar má nefna að hún hefur náð upp 1.400 tonnum af eir úr sokknu skipi á 3,2 kílómetra hafdýpi og 48 tonnum af silfri úr skipi sem lá á 4,2 kílómetra dýpi.

Hampiðjan hefur áður selt DynIce togtaugar í þetta sama skip því þegar útgerð þess hófst var 4.200 m togtaug frá Hampiðjunni um borð og var hún síðar lengd í tveimur áföngum í 5.200 m.  Nú síðast var Swire Seabed Worker afhent 6.300 metra löng DynIce togtaug i 44 mm og með styrk upp á 142 tonn.

Hvers vegna DynIce?

Svarið við spurningunni hér að ofan er einfalt því þegar unnið er á miklu dýpi er ekki mögulegt að nota stálvír. Hann myndi einfaldlega slitna undan eigin þunga. DynIce togtaugar eru sérhannaðar fyrir togvindur og henta afar vel í þessa notkun, enda þyngdin mjög lítil í sjó og því er hægt að nota þær á hvaða dýpi sem er. Almennt er gengið út frá því að nothæfi stálvírs takmarkist við 3.000 m dýpi. Munurinn á DynIce togtaugum og stálvírum með sama slitþol liggur í eðlisþyngdinni en hún er meira en þrisvar sinnum minni þegar DynIce er borið saman við stál. Endingin er sömuleiðis mun meiri.

Svo vikið sé að nýju DynIce Warp togtauginni, sem framleidd var í verksmiðju Hampiðjan Baltic í Litháen, þá er hún sú lengsta sem framleidd hefur verið. Tógið vegur eitt og sér 8,6 tonn en til samanburðar má geta að 44 mm togvír sömu lengdar myndi vega 62 tonn. Með flutningsramma og kefli vegur einingin um 12,6 tonn. Þetta er þyngsta tóg sem Hampiðjan Baltic hefur framleitt til þessa í einni lengd. Keflið er 3,1 m á hæð og 3,0 m á breidd. Stærðarhlutföllin réðust af leyfilegri flutningsstærð án sérstaks leyfis. Flutningurinn gekk með því að nota lágan flutningavagn sem aðeins var í um 15 sm hæð frá yfirborði vegar og tók það bílstjórann um þrjá daga að koma farminum frá verksmiðju Hampiðjunnar í Litháen til Björgvinjar í Noregi.

 

IMG_3296

Öflug framleiðsla, mikil afkastageta
 
Nýja 44 mm DynIce togtaugin var framleidd á aðeins 30 dögum í nýrri fléttivélasamstæðu sem sett var upp á síðasta ári í verksmiðju Hampiðjunnar í Siauliai í Litháen. Hluti af framleiðslulínunni er stærsta 12 þátta fléttivél sinnar tegundar sem framleidd hefur verið í heiminum til þessa en aðrir hlutar eru sérhannaðir og smíðaðir af Hampiðjunni. Vélasamstæðan eykur afkastagetu verksmiðjunnar umtalsvert og nú býður Hampiðjan upp á miklu lengri DynIce taugar, framleiddar í einni samfelldri heild án samsetninga, í sverleikum yfir 200 mm. Útkoman er mun vandaðri framleiðsla á taugum af mikilli lengd þar sem ekki þarf lengur að setja saman einstaka þætti tauganna meðan á framleiðsluferlinu stendur. Án þessa nýja tækjabúnaðar og endurbættra framleiðsluaðferða hefði einfaldlega ekki verið hægt að framleiða taugar af þeirri stærð og lengd og hægt er í dag.


Please fill in the below details in order to view the requested content.