Gerast áskrifandi

Index: 0

Ótrúleg ending Dynex kaðla í flottrollum Þorsteins ÞH

24.10.2013

Ótrúleg ending DynIce kaðla í flottrollum Þorsteins ÞH
,,Mér datt strax í hug þegar ég las fréttina um sölu og afhendingu á þúsundasta Gloríutrollinu að velgengni þessara veiðafæra væri engin tilviljun. Þennan sama dag vorum við að ,,slátra“ 1152 metra Gloríu Helix flottrollinu okkar eftir tíu ára farsæla notkun og það rifjaðist upp fyrir mér að í burðarlínum þess var 16 mm fléttaður kaðall úr ofurefninu DynIce sem við höfðum áður notað í fyrsta Gloríu þantrollinu, sem reynt var um borð í skipinu á kolmunnaveiðum árið 1999.“
Þetta segir Hörður Guðmundsson, skipstjóri á Þorsteini ÞH-360. Hann segist hafa sett sig í samband við Guðmund Gunnarsson hjá Hampiðjunni sama dag og hann las fréttina. Ástæðan er einföld. Ekki hafi verið að sjá annað en að DynIce kaðlarnir væru hugsanlega enn í góðu lagi eftir 14 ára notkun á kolmunna-, loðnu-, síldar- og makrílvertíðum.

16mmDynex-14years

,,Við sendum Hampiðjunni hluta kaðlaefnisins til skoðunar. Það stendur til að átaksprófa kaðlana og hver veit, kannski nýtast þeir okkur í gilsa og annað í framtíðinni. Ef svo reynist þá er endingin með miklum ólíkindum,“ segir Hörður.
Guðmundur Gunnarsson, þróunarstjóri Hampiðjunnar, man vel eftir því þegar félagið afhenti fyrsta Gloríu þantrollið sem reynt var um borð í Þorsteini sem þá var í eigu Samherja og bar einkennisstafina EA-810.
,,Þetta var 1664metra Gloríu þantroll sem fyrst var reynt á kolmunnaveiðum austur af landinu. Það kom reyndar svo vel út að áhöfnin kallaði það jafnan ,,gulltrollið“. Þegar það troll var úr sér gengið árið 2003 voru áðurnefndar burðarlínur festar við 1152 metra Gloríu Helix troll, það  sama og slegið var af í Vestmannaeyjum í síðasta mánuði,“ segir Guðmundur  Gunnarsson.

Thybörön toghlerarnir brugðust aldrei
Hörður Guðmundsson, sem verið hefur skipstjóri á Þorsteini síðan 1995, segir að trollin og DynIce kaðlarnir séu ekki það eina sem dugað hefur vel í útgerðarsögu Þorsteins, sem smíðaður var árið 1988.
,,Það nægir að nefna 13 m2 Thyborøn flottrollshlerana sem við fengum árið 2002. Það var sama hvort við vorum að veiða kolmunna, loðnu, síld eða makríl. Sama stillingin dugði alltaf og við fórum m.a.s. með þá á tvær úthafskarfavertíðir með góðum árangri. Við þurftum aldrei að breyta neinu og notuðum sömu hlerana allt þar til að þeim var skipt út fyrr á þessu ári,“ segir Hörður en hann er þó þeirrar skoðunar að skipið sjálft eigi mestar þakkir skyldar.
,,Þetta er einstakt skip og ég er ekki einn um að segja að þetta sé besta sjóskip sem ég og fleiri höfum komið um borð í. Það hreyfist ekki í brælum og því hefur verið vel við haldið. Það styttist þó í því að það víki fyrir nýju skipi sem Ísfélag Vestmannaeyja er að láta smíða fyrir sig í Tyrklandi. Það er væntanlegt til landsins í marsmánuði nk.,“ segir Hörður Guðmundsson en hann mun taka við skipstjórn á nýja skipinu.

Please fill in the below details in order to view the requested content.