Gerast áskrifandi

Index: 0

Sparar mikinn tíma og vinnu

26.02.2018

Allir togarasjómenn kannast við það vandamál sem getur fylgt því að setja nýja togvíra á tromlurnar á togspilunum. Það  getur  stundum tekið nokkra daga að fá vírana til að sitja rétt undir hentugu álagi og sjaldnast hefur gefist nema eitt tækifæri til að fá allt til að ganga upp. Með tilkomu hins nýja vírastrekkitækis Hampiðjunnar heyrir þessi vandi nú sögunni til.

Vírastrekkitækið hefur verið notað í Vestmannaeyjum um skeið og þar hefur það reynst vel þegar togbátar Eyjamanna hafa þurft á nýjum togvír að halda. Að sögn Árna Skúlasonar framleiðslustjóra, var ljóst að endurbæta þyrfti vírastrekkitækið til þess að það nýttist einnig stærri togurum.
,,Af hálfu Hampiðjunnar var lögð mikil vinna og kostnaður í að endurbæta vírastrekkitækið til að það réði við stærri verkefni. Tækifærið til að reyna búnaðinn kom á dögunum þegar hinn nýi og glæsilegi togari HB Granda, Akurey AK, kom til að taka nýja togvíra.”

,,Þetta gekk vonum framar. Við lögðum skipinu með skutinn upp að hafnarkantinum við Hampiðjuna. Með skipið þannig stillt, tókum við togvírinn þráðbeint inn á tromlurnar undir stöðugu álagi í gegnum vírastrekkitækið, sem gaf ekki  tommu eftir við innröðun víranna inn á togspilin. Það er ekki hægt að segja annað en að allt ferlið hafi gengið mjög þægilega fyrir sig,” segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey. Hann telur að það hafi tekið tæpa fimm tíma að koma vírunum inn á tromlurnar. Alls fóru 1.100 faðmar (2013 metrar) af 32 mm togvír inn á hvora tromlu fyrir sig.

Jökuldýpið var vinsælt til að strekkja á vírum
Að sögn Eiríks er ekki hægt að bera það saman hvernig togvírar hafa verið settir inn á tromlur í áranna rás og nú þegar hægt er að nýta vírastrekkitækið.

,,Gamla lagið var fólgið í því að vírarnir voru teknir af kefli á hafnarbakkanum og oftast voru lyftarar fengnir til að vera með þunga ofan á vírunum til að hægt væri að draga þá inn á togspilstromlurnar undir einhvers konar álagi. Síðan reyndu menn að gæta þess að vírinn raðaðist sem réttast inn á tromlurnar. Þessi aðferð kallaði oft á það að menn þurftu að laga vírinn til en verst var ef það slaknaði á vírnum á meðan honum var komið fyrir á tromlunni. Slakur vír eyðileggst fyrr en sá sem er undir réttu álagi,” segir Eiríkur en hann segir að þótt vírinn væri kominn á tromlurnar hafi björninn ekki verið unninn.
,,Áður en veiðar gátu hafist þá þurfti að strekkja vírinn upp á nýtt úti á sjó. Jökuldýpið var vinsælt til þess. Oft settum við lóð í endana á togvírunum og slökuðum öllu út. Svo voru vírarnir teknir inn undir álagi frá lóðunum, eigin þunga og viðnáms frá sjónum og þess var gætt að þeir röðuðust sem réttast inn á tromlurnar. Þetta fór ekki alltaf vel en það er stórt atriði að ná góðri röðun á vírana. Ef þeir leggjast illa þá eykst hættan á að þeir skemmist. Það gat tekið drjúgan tíma að fá vírana góða,” segir Eiríkur en hann segir einn kostinn við vírastrekkitækið vera þann að ef eitthvað aflagist inni á tromlunni, þá sé auðvelt að hífa vírana í land og koma þeim fyrir að nýju. Það hafi ekki verið hægt áður.

Árni Skúlason er að vonum ánægður með árangurinn.
,,Þetta var, að ég held, í fyrsta skipti sem það tókst að nota vírastrekkitækið við víratöku, þráðbeint inn á  stærri togara, án þess að það gæfi tommu eftir við að strekkja vírinn í inn á tromlur togvindanna. Það stóð því alveg undir hlutverki sínu.”

Please fill in the below details in order to view the requested content.