Gerast áskrifandi

Index: 0

Umfangsmikil starfsemi Hampiðjunnar í Litháen

25.02.2014

Umfangsmikil starfsemi Hampiðjunnar í Litháen
-    rætt við Hjört Erlendsson, framkvæmdastjóra Hampiðjan Baltic

Þegar Hampiðjan hóf starfsemi í Litháen árið 2003 með kaupum á netafyrirtækinu Utzon, voru starfsmenn þess um 100 talsins.  Nafni félagsins var breytt í Hampidjan Baltic og húsnæðið rúmlega tvöfaldað með nýbyggingum og er nú 21.500 m2.  Garn- og kaðlaframleiðsla ásamt netaverkstæði var sett up í þessu viðbótarhúsnæði á árunum 2004 – 2006 og nú starfa um 280 manns hjá fyrirtækinu.  Megnið af starfseminni sem fluttist til Litháen hafði verið í Portúgal árin á undan en að sögn Hjartar Erlendssonar, framkvæmdastjóra Hampiðjan Baltic, var ákvörðun um að færa starfsemina þangað frá Íslandi ekki síst tekin vegna þess hve erfiðlega gekk að fá starfsfólk hér heima á þeim uppgangstímum sem voru á níunda áratug síðustu aldar. Verksmiðjan í Litháen hafði ekki verið starfrækt í mörg ár er efnahagshrunið skall yfir og það er því nærtækast að spyrja Hjört að því hvort hrunið hafi haft sömu áhrif í Litháen og á Íslandi?
,,Já og ef eitthvað er þá voru áhrifin verri. Sölulega séð þá skipti hrunið okkur litlu sem engu máli innanlands, einfaldlega vegna þess að sáralítið af framleiðslu Hampiðjan Baltic er seld í Litháen og hinum Eystrasaltslöndunum. Reyndar er það svo að aðeins um 10% framleiðslunnar eru seld í beinni sölu en um 90% eru seld í gegnum söluskrifstofu Hampiðjunnar í Reykjavík. Það, sem kalla má beina sölu, fer til Eystrasaltslandanna og svo til Hollands en það stafar af því að Utzon seldi töluvert af netum til viðskiptavina í Hollandi og við tókum við þeim viðskiptasamböndum. Önnur fluttust yfir til söluskrifstofunnar á Íslandi,“ segir Hjörtur Erlendsson, framkvæmdastjóri Hampiðjan Baltic í samtali við heimasíðuna.

IMG_2705Part-3Web

Ofurefnin vaxandi
Gríðarleg breyting hefur orðið á veiðarfæratækni á undanförnum árum og áratugum og starfsemi Hampiðjan Baltic hefur tekið mið af því. Mikil þróun hefur orðið á köðlum eða tógum og Hjörtur segir að framleiðsla á hinum hefðbundnu þrísnúnu köðlum hafi dregist verulega saman en þess í stað sé áherslan lögð á framleiðslu á köðlum, s.s. Helix köðlum fyrir flottroll og DynIce ofurkaðla, en einnig á ýmiss konar sérhæfðum köðlum og taugum fyrir olíuiðnaðinn.
,,Við hjá Hampiðjunni komumst fyrst í kynni við DSM sem eiga einkaleyfið að Dyneema, sem eru þræðirnir sem eru notaðir  í DynIceþráðanna, árið 1986 eða tveimur árum áður en það fyrirtæki hóf sjálft framleiðslu á þráðunum. Við fengum þetta efni frá þeim og okkar starfsmenn fóru í framhaldinu að gera tilraunir með það hvernig best mætti nýta efnið til veiðarfæragerðar. Þessar tilraunir og sú mikla þróunarvinna sem unnin hefur verið hefur leitt til þess að um 60% þeirra verðmæta sem skapast hjá Hampiðjan Baltic eru með einum eða öðrum hætti tengd framleiðslu á DynIce ofurtógum,“ segir Hjörtur en að hans sögn má skipta starfsemi verksmiðjunnar í Litháen í þrjár meginstoðir. Þær eru kaðlaframleiðslan, netaframleiðslan og svo rekstur netaverkstæðis. Kaðlarnir eru af margvíslegum toga en netin eru framleidd úr næloni eða polyethylene. Netaverkstæðið er nokkurs konar undirverktaki netaverkstæðis Hampiðjunnar á Íslandi en það vinnur einnig mikið fyrir Cosmos Trawl í Danmörku en það fyrirtæki er í eigu Hampiðjunnar.“
Að sögn Hjartar er framleiðsla á efnum til veiðarfæragerðar enn góður meirihluti starfsemi Hampiðjunnar Baltic og þar eru miklir framtíðarmöguleikar sérstaklega með DynIce Togtaugar og DynIce Data höfuðlínukapalinn. Hann leynir því hinsvegar ekki að einn helsti vaxtarbroddurinn nú um mundir sé framleiðsla á margs konar DynIce köðlum eða tógum fyrir þá starfsemi sem nefnist á enskri tungu ,,offshore“. Innan þess flokks er olíu- og gasiðnaðurinn og öll sú þjónusta sem undir hann fellur.  Þá er ótalinn hinn mikli vöxtur sem orðið hefur í framleiðslu á sérhæfðum köðlum sem notaðir eru við olíuleit með bergmálstækni (seismic). Á því sviði hefur Hampiðjan náð miklum árangri og er með stærstu markaðshlutdeild þeirra fyrirtækja sem þjónusta þann iðnað. Um er að ræða dráttartóg sem rannsóknaskip draga á eftir sér og millibilstóg á milli hljóðnematóganna sem notaðir eru við leitina og stroffur út í hlera sem þjóna sama tilgangi og toghlerar.

30.BalticCropWeb

Stöðug vöruþróun
Í verksmiðjunni í Litháen er unnið allan sólarhringinn á þrískiptum vöktum fimm daga vikunnar utan hvað í ofurefnadeildinni hefur sl. ár verið unnið allan sólarhringinn alla sjö daga vikunnar vegna mikillar eftirspurnar. Öflug rannsóknastofa er innan fyrirtæksins og hjá því starfa níu verkfræðingar og er t.a.m. öll þróunarvinna veiðarfæra og véla unnin í þrívíddarforritum
Ein sérstaða Hampiðjunnar er sú að alla tíð hefur verið lögð rík áhersla á þróunarstarf innan fyrirtækisins og framleiðslu á eigin vörum. Hjörtur segir að undanfarin ár hafi síaukin áhersla verið lögð á að reyna að fá einkaleyfi á hugmyndum og framleiðsluvörum félagsins.
,,Við höfum alltaf verið í þeirri einstöku stöðu á veiðarfæramarkaðnum að taka við hráefninu, plastkúlum eða Dynemaþráðum, frá framleiðendum og skila frá okkur fullbúinni vöru. Þetta þýðir að það er ekki nóg með að við höfum lagst í mikla vöruþróun, heldur höfum við einnig þurft að þróa og smíða vélbúnaðinn sem notaður er til framleiðslunnar. Þetta held ég að sé einstakt en um leið hefur þessi aðferð gefið okkur mjög mikla möguleika í að skapa okkur sérstöðu á markaðnum með vörum sem enginn annar býður upp á.  Ef við viljum breyta eða bæta eitthvað í veiðarfærunum þá ráðum við öllu ferlinu sjálfir og þurfum ekki að semja við neinn utanaðkomandi.  Þannig getum við brugðist hratt við þegar við sjáum möguleika á nýsköpun eða þörf á endurbótum og lagfæringum.

IMG_3143BalticWeb

Samkeppnin sefur aldrei

Mikil samkeppni er á veiðarfæramarkaðnum ekki síður en á þeim markaði sem olíuiðnaðurinn hefur skapað.  Hampiðjan er með sölustarfsemi um allan heim og það liggur því beinast við að spyrja Hjört um möguleika verksmiðjunnar í Litháen á komandi árum.
,,Hampiðjan hefur aukið hlutdeild sína á Írlandi, í Danmörku og Svíþjóð og árangur okkar í Noregi er alltaf að aukast. Staðsetning verksmiðjunnar í Litháen er mjög góð með tilliti til markaða í Evrópu. Við getum sent frá okkur vöru til Hollands sem komin er til kaupenda á 26 tímum og ef mikið liggur við þá getum við sent gám héðan til Íslands á átta dögum. Hvað varðar verksmiðjuna sjálfa þá höfum við fjárfest töluvert í framleiðslutækjum og búnaði og ekki síst í kaðlafléttivélum fyrir Dyneema. Við erum með stærstu kaðlafléttivél fyrir 12 fléttaða kaðla í Evrópu og reyndar eru bara til þrjár slíkar í heiminum í dag. Við getum fléttað kaðla allt upp í 200 mm að sverleika og slitkraftur slíkra kaðla úr Dyneema er allt að 2.800 tonn. Varðandi framleiðslugetuna þá getum við bætt töluverðu við okkur án þess að stækka húsakostinn.  Það verður áfram samkeppni á öllum sviðum en við er í ágætri stöðu til að ná árangri í henni, hér eftir sem hingað til“Please fill in the below details in order to view the requested content.