,,Þetta er bráðnauðsynlegt tæki og ég skil það hreinlega ekki hvernig maður fór eiginlega að hér áður fyrr. Það er ekki eins og maður hafi ekki tekið nýja togvíra um borð fyrr en þetta er í fyrsta skiptið sem þeir raðast rétt inn á spiltromlurnar. Munurinn er ótrúlegur og allt hefur virkað fullkomlega.“
Þetta segir Jón Valgeirsson, skipstjóri á togaranum Bergey VE, en fyrir síðustu veiðiferð var skipt um togvíra skipsins og nýir vírar teknir um borð. Vírarnir voru keyptir hjá útibúi Hampiðjunar í Vestmannaeyjum og þeim var komið fyrir á spilunum undir álagi með nýju vírastrekkitæki sem Hampiðjan í Vestmannaeyjum setti upp á bryggjunni á athafnasvæði félagsins fyrr í sumar. Þetta er fyrsta tækið sinnar tegundar á Íslandi en að sögn Inga Freys Ágústssonar, netagerðarmeistara og útibússtjóra Hampiðjunnar í Eyjum, hefur sambærilegt tæki verið í notkun hjá Cosmos Trawl, dótturfélagi Hampiðjunnar í Danmörku, með góðum árangri í u.þ.b. eitt ár.
,,Við létum steypta undirstöður fyrir tækið hér á bryggjunni og með því að þræða togvírana í gegnum það getum við stjórnað átakinu á þeim þegar þeir eru teknir inn á tromlurnar um borð í skipunum. Fyrir minni togara eins og Bergey hentar vel að þetta sé gert undir fjögurra til átta tonna átaki en eftir því sem skipin eru stærri og eru með meiri vír úti þarf átakið að vera meira í upphafi,“ segir Ingi Freyr Ágústsson.
Að sögn Jóns skipstjóra hefur þeirri aðferð verið beitt fram að þessu að reynt er að strekkja á togvírunum með því að hengja stokkakeðjur í víraendann en það hafi aldrei gefið mjög góða raun.
,,Það er e.t.v. hægt að ná einhverjum árangri í rjómablíðu þegar maður ræður við aðstæður. Heilt yfir hefur þetta þó aldrei komið vel út og það er ekki fyrr en nú að við fáum 100% röðun á vírunum inn á tromluna. Ég hefði ekki trúað þessu að óreyndu,“ segir Jón Valgeirsson.