Skip to main content

Nýtt og glæsilegt netaverkstæði Nordsøtrawl í Thyborøn í Danmörku var tekið formlega í notkun í síðustu viku að viðstöddum fjölda gesta. Nýja verkstæðið er í 2.600 fermetra byggingu og þar af eru 200 fermetrar nýttir sem skrifstofuhúsnæði.  

Veiðarfærafyrirtækið Cosmos Trawl í Danmörku á 80% hlut í Nordsötrawl en Cosmos Trawl er sem kunnugt er alfarið í eigu Hampiðjunnar. Framkvæmdastjóri Nordsøtrawl er Flemming Ruby en hann hefur áratuga langa reynslu á sviði veiðarfæragerðar.  

Að sögn Flemming Ruby er nýja verkstæðið búið öllum fullkomnasta tækjakosti sem völ er á.

,,Við erum hér með sex brautir sem við notum jöfnum höndum til framleiðslu og viðgerða á trollum. Markmið okkar er einfalt. Hér munum við veita viðskiptavinum okkar þá bestu þjónustu sem í boði er,“ segir Ruby en meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru útgerðarfélög í Thyborøn, þar sem starfrækt er blómleg útgerð, og annars staðar í Danmörku. Nordsøtrawl hefur einnig getið sér gott orð utan Danmerkur og nægir í því sambandi að nefna lönd eins og Svíþjóð, Holland, Noreg og Marokkó.  

,,Það er meira en nóg að gera og verkefnastaðan er mjög góð. Næsta ár lítur vel út og maður verður var við aukna bjartsýni allra sem starfa í sjávarútvegi. Kvótar á flestum nytjastofnum eru á uppleið, verðið fyrir afurðirnar hefur hækkað og olíuverðið hefur lækkað umtalsvert. Það er því full ástæða fyrir okkur til að vera bjartsýn á framtíðina,“ segir Ruby en að hans sögn tókst mjög vel til varðandi nýbygginguna í Thyborøn.

,,Bygging hússins gekk mjög vel og byggingartíminn var aðeins um 25 vikur. Fjórar vikur fóru síðan í uppsetningu á tækjabúnaði. Með tilkomu nýja verkstæðisins munu afköstin aukast og þjónusta okkar við viðskiptavini verða enn betri. Þá er húsnæðið mjög vel útbúið fyrir starfsfólk okkar, sem er afar ánægt með vinnuaðstöðuna, en 16 netagerðamenn starfa nú hjá fyrirtækinu,“ segir Flemming Ruby.