Í lok nóvember var farið í hina árlegu tankferð á vegum Hampiðjunnar til Hirtshals í Danmörku. Þar kynna sér skipstjórar, stýrimenn, útgerðarstjórar, netagerðarmenn og tæknimenn helstu nýjungar í veiðafærahönnun Hampiðjunnar og samstarfsaðila. Þátttaka var afar góð og var hópurinn fjölþjóðlegur með um 73 manns frá Íslandi, Færeyjum, Danmörku, Noregi, Írlandi og Nýja Sjálandi.
Tankurinn sem um ræðir er sérhannaður til prófana á veiðarfærum og hefur um langa hríð gagnast framleiðendum og sjómönnum frá öllum heimshornum. Í honum má sjá hvernig veiðarfærin hegða sér í togi og hvernig þau bregðast við mismunandi toghraða.
Í ferðinni kynnti Hampiðjan nýjustu botn- og flottroll fyrirtækisins og sýndi þar að auki eiginleika Helix kaðalsins samanborið við hefðbundna flottrollskaðla. Þantæknin sem Helix kaðallinn byggir á heldur trollum vel opnum og er hann í nær öllum flottrollum sem framleidd eru hjá fyrirtækinu.
Einnig var sýndur munurinn á DynIce Data höfuðlínukapli og stálkapli í togi en þar er munurinn mikill því DynIce Data er léttur og leitar upp í drætti meðan stálkapallinn sekkur niður. Þannig lyftir DynIce Data höfuðlínunni upp en stálkapall dregur hana niður og í sumum tilfellum getur stálkapallinn fælt fisk frá trollopinu ef hann liggur of neðarlega. Mismunurinn á þessum tveim köplum verður öllum ljós í tankinum og þar er sjón sögu ríkari.
Í tankferðinni kynntu samstarfsaðilar Hampiðjunnar einnig nýjungar. Hleraframleiðandinn Thyborøn Trawldoors sýndi nýjustu gerðir stýranlegra toghlera. Þeim er stýrt beint úr brúnni sem gerir það að verkum að hægt er að hafa mun betri stjórn á þeim í togi, hækka eða lækka og breyta skurði. Hönnunin á Thyborøn toghlerunum er einkaleyfisvarin og hlerarnir eru mun sterkbyggðari en aðrir stýranlegir hlerar sem eru í boði.
Simberg var með kynningu á dýptarmælum, trollnemakerfum og sónurum frá Simrad. Bar þar hæst ný útgáfa af Simrad ST-90 lágtíðni sónarnum sem er nú enn langdrægari en áður og með mikla skerpu og upplausn á styttri vegalengdum.
Oliveira kynnti togvíra en vírarnir frá þeim eru að verða sífellt vinsælli hér á norðurslóðum og markaðshlutdeild þeirra fer ört vaxandi.
Einn áhugaverðasti fyrirlesturinn var frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) um notkun gervigreindar við fiskveiðar, sér í lagi um notkun myndavéla og myndgreiningar á aflanum. DTU hefur þróað búnað til að mynda fisk sem er að koma inn í trollið og sá búnaður er einfaldari og meðfærilegri en sést hefur áður. Myndböndin sem sýndu greiningu á fiskinum koma inn sýndu vel hvaða miklu möguleikar felast í þessari tækni í framtíðinni og nýi DynIce Optical Data ljósleiðarakapallinn er sérstaklega hannaður fyrir þann mikla gagnaflutning sem öflug myndgreining á aflanum mun krefjast í náinni framtíð.
Fyrir utan kynningar í tankinum var farið í heimsókn til skipasmíðastöðvarinnar Karstensen í Skagen. Eftir kynningu á stöðinni fékk hópurinn að skoða þrjú uppsjávarveiðiskip sem eru í smíðum; Hákon, sem er í eigu Gjögurs, Finn Fríða fyrir Varðin í Færeyjum og Ginneton sem siglir undir sænskum fána en gert út frá Skagen
Tankferðir Hampiðjunnar njóta ætíð vinsælda enda eru þær gott tækifæri til að kynna sér nýjungar á í veiðitækni en ekki síður til að stofna til nýrra kynna, læra af reynslu annara og treysta vináttubönd sem er ómetanlegt þegar komið er á miðin. Þrátt fyrir að dagskráin í tankinum sé nokkuð þétt gefst tími til spjalls og samveru að dagsverki loknu enda öll kvöldin vandlega skipulögð með sameiginlegum kvöldverðum á mismunandi stöðum í Hirtshals.
Eftir þrjá daga í Hirtshals var farið til Kaupmannahafnar þar sem stór hluti hópsins gisti aðfararnótt laugardagsins og naut danskrar jólastemningar saman í boði Hampiðjunnar. Margir nýttu síðan gott tækifæri og voru áfram yfir helgina með mökum sem bæst höfðu í hópinn á föstudaginn.
Tankferðirnar eru farnar á hverju ári og næsta ferð er fyrirhuguð í haust, 26.-29. nóvember, þannig að það er um að gera að merkja þá daga í dagatalinu.