Skip to main content

Uppsjávarveiðiskipið Sigurður VE kom í byrjun vikunnar í fyrsta skipti til heimahafnar í Vestmannaeyjum frá því 24. júlí sl. Skipið hefur verið á makríl og síld í sumar og haust og hefur aflanum verið landað hjá Ísfélaginu á Þórshöfn. Hörður Már Guðmundsson skipstjóri er mjög ánægður með aflabrögðin, ekki síður en veiðarfærin sem eru öll frá Hampiðjunni.
,,Aflinn í sumar eru um 8.000 tonn af makríl og 8-9.000 tonn af síld. Veiðarnar gengu mjög vel og þótt það væri langt að fara eftir makrílnum í lokin, eða alla leið austur í Síldarsmugu, þá var alltaf veiði. Síldveiðarnar gengu svo eins og í sögu. Stutt að fara og mjög góður afli,” segir Hörður Már.

Notuð eru Gloríu flottroll frá Hampiðjunni við veiðarnar. Nýja 1760 makríltrollið frá því í vor er með léttari útfærslu af 8 byrða makrílbelg, ásamt því sem fótreypi trollsins var létt að framan til að létta trollið og hjálpa hlerunum. Með þessum breytingum opnaðist trollið 160 x 40 m í hlutfallinu 1:4 í trollopi og 1:5 á vængendum, sem kemur sér afskaplega vel íö yfirborðsveiðinni.

Hörður Már segir að þessi hönnun hjálpi til við að forðast síld sem aukaafla á makrílveiðunum.

Síldartrollið er hannað allt öðruvísi en makríltrollið. Það er 2.048 metra langt og trollopið er 150 metra breitt og getur farið upp í 80 metra opnun með höfuðlínusegli.

Við bæði trollin notar Hörður Már 80 metra langa grandara og bakstroffur og er hvort tveggja úr ofurefninu DynIce. Hlerarnir eru 15 fermetra hvor og eru þeir af gerðinni Blue Stream frá Thyborøn Trawldoors.

Að sögn Harðar Más eru skipverjar mjög ánægðir með veiðarfærin og virkni þeirra.


,,Nú síðast, eða í fyrra, fengum við T90 kvikklínupoka frá Hampiðjunni sem við höfum notað á makrílveiðum jafnt sem síldveiðum. T90 pokinn hefur reynst okkur mjög vel. Þessi poki  þrýstir mun minna að aflanum en eldri pokar og við sjáum að fiskurinn er lifandi og spriklandi þegar honum er dælt  úr pokanum í kælitankana. Áhöfnin sér oft að fiskurinn er syndandi í kælitönkunum þegar þeir eru að rúmmálsmæla aflann milli hola þegar stutt er á dregið í veiðinni og vanir nótamenn segja þetta sé alveg eins og í dælingu í nótaveiðinni þegar þeir sjá spriklandi makríl og síld í kvikklínupokanum aftan við skipið,” segir Hörður Már en T90 kvikklínupokinn er gerður úr fléttuðu,  Magnet Gulu polyethylene neti með fjórum sverum, öflugum DynIce kvikklínum. Það gengur mjög vel að dæla úr pokanum sem er afar mikilvægt þegar vel aflast. Kvikklínuramminn heldur vel utan um aflann sem rennur viðstöðulaust aftur í dæluhólkinn, aftast  í pokanum


Er rætt var við Hörð Má var hann ekki viss um að veiðiárinu væri alveg lokið.

,,Menn eru aðeins að doka við og bíða þess hvernig íslenska sumargotssíldin muni haga sér. Við eigum lítinn kvóta og það má vera að ákveðið verði að sækja þau tonn í nóvember eða desember. Kolmunni kemur ekki til greina hjá okkur enda er sá litli kvóti sem við áttum búinn,” sagði Hörður Már Guðmundsson.