Skip to main content
Financial

Hampiðjan – Ársreikningur 2013

By 06/03/2014No Comments

Lykilstærðir (fjárhæðir í evrum og samanburðartölur fyrra árs í sviga):

Rekstrartekjur jukust um 12% og voru 50,4 milljónir (45,2 milljónir).

Ebitda af reglulegri starfsemi, var 7,8 milljónir (7,8 milljónir).

Hlutdeild í hagnaði HB Granda var 3,2 milljónir (1,4 milljónir).

Hagnaður ársins var 7,6 milljónir (5,5milljónir).

Heildareignir voru 88,7 milljónir (81,6 milljónir).

Vaxtaberandi skuldir voru 24,2 milljónir (24,5 milljónir).

Eiginfjárhlutfall var 63% (60%).

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 50,4 milljónir og jukust um 12% frá árinu áður.  Innri vöxtur samstæðunnar var 3% og ytri vöxtur 9%, en Nordsötrawl í Thyboron í Danmörku bættist í samstæðuna í ársbyrjun 2013.   Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 12% af rekstrartekjum eða 5,9 milljónir en var 14% í fyrra eða 6,1milljón.  Fjármunatekjur ásamt hlutdeild í hagnaði HB Granda að frádregnum fjármagnsgjöldum voru 2,2 milljónir til tekna en voru 0,4 milljónir til tekna á fyrra ári.  Hagnaður ársins var 7,6 milljónir en var 5,5 milljónir árið 2012. 

Efnahagur

Heildareignir voru 88,7 milljónir í árslok.  Eigið fé nam 55,5 milljónum, en af þeirri upphæð eru 6,4 milljónir hlutdeild minnihluta í eigin fé Swan Net Gundry á Írlandi, Fjarðaneta á Íslandi og dótturfélags Cosmos Trawl í Danmörku.  Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í árslok 63% af heildareignum samstæðunnar. Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 24,2 milljónum og lækkuðu um 0,3 milljónir frá ársbyrjun.  

Aðalfundur

Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 28. mars 2014 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst klukkan 16:00.

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2014 verði vegna rekstrarársins 2013 greidd 0,54 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða kr. 262,8 milljónir. Arðurinn verði greiddur í viku 18.  Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 28. mars 2014, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 2. apríl.  Arðleysisdagurinn er 31. mars.

Fjárhagsdagatal

Hálfsársuppgjör; 29. ágúst 2014

Ársuppgjör 2014;  6. mars 2015

Jón Guðmann Pétursson, forstjóri:  „Síðasta ár var fjórða árið í röð sem samstæðan nýtur söluaukningar vegna innri vaxtar en tilkoma Nordsötrawl í Thyboron í byrjun ársins bætti einnig við ytri vexti.  Rekstrarhagnaður félagsins hefur verið góður á undanförnum árum en einnig hafa eignir í óskyldum rekstri, sem er að uppistöðu til 8,8% eignarhlutur í HB Granda hf., skilað félaginu góðri ávöxtun.  Staða Hampiðjunnar er sterk bæði er varðar rekstur og efnahag.“ 

Hægt er að nálgast ársreikning hér