Árið 2016
- Rekstrartekjur voru 117,1 m€ og jukust um 98,8% frá fyrra ári úr 58,9 m€.
- Hagnaður var 14,3 m€ en var 9,9 m€ árið áður.
Lykilstærðir
- EBITDA af reglulegri starfsemi var 14,7 m€ en 9,3 m€ árið áður.
- Hlutdeild í hagnaði HB Granda er ekki lengur færð inn en var 3,9 m€ árið áður.
- Innleystur söluhagnaður vegna sölu hlutabréfa í HB Granda var 4,3 m€.
- Heildareignir voru 194,4 m€ en í lok fyrra árs voru heildareignir 102,5 m€.
- Vaxtaberandi skuldir voru 81,4 m€ en voru 21,7 m€ árið áður.
- Eignarhlutur í HB Granda metinn á árslokagengi er 26,5 m€.
- Eiginfjárhlutfall var 48% en 69% árið áður.
- Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 911 en var 559 árið þar á undan.
Rekstur
Velta samstæðunnar tvöfaldaðist við kaup á P/f Von í Færeyjum. P/F Von samanstendur af 9 dótturfyrirtækjum sem staðsett eru í Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Kanada, Danmörku, Noregi og Litháen. Í lok ársins eru fyrirtæki samstæðunnar 26 og eru staðsett í 12 löndum.
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 117,1 m€ og jukust um 98,8% frá árinu áður.
Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 11,3 m€ eða 9,6% af rekstrartekjum en var 7,2 m€ eða 12,2% árið áður.
Fjármunatekjur ásamt innleystum söluhagnaði hlutabréfa í HB Granda að frádregnum fjármagnsgjöldum og að viðbættum hagnaði hlutdeildarfélaga voru 4,7 m€ til tekna. Árið áður var HB Grandi reiknað sem hlutdeildarfélag og þá var samsvarandi tala 3,6 m€ til tekna.
Hagnaður ársins var 14,3 m€ en var 9,9 m€ árið 2015.
Efnahagur
Heildareignir voru 194,4 m€ og hafa hækkað úr 102.5 m€ í árslok 2015. Hækkunin er tilkomin að mestu vegna kaupa á P/f Von.
Eigið fé nam 93,6 m€, en af þeirri upphæð eru 10,8 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í árslok 48% af heildareignum samstæðunnar.
Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 81,4 m€ og hækkuðu um 59,7 m€ frá ársbyrjun. Þar munar mest um þær skuldir sem fylgdu P/f Von 19,3 m€ og síðan 34,9 m€ láni sem tekið var til kaupanna. Á móti því láni stendur hinsvegar eign í hlutabréfum HB Granda sem metin var á árslokagenginu á 26,5 m€.
Helstu tölur í íslenskum krónum
Miðað við meðalgengi krónunnar gagnvart evru á árinu 2016 þá er velta samstæðunnar um 15,7 milljarðar, EBITDA 2 milljarðar og hagnaður 1,9 milljarðar. Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok árs 2016 þá eru heildareignir 23,2 milljarðar, skuldir 12,0 milljarðar og eigið fé 11,1 milljarðar.
Aðalfundur
Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 31. mars 2017 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst fundurinn klukkan 16:00.
Tillaga stjórnar um arðgreiðslu
Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2017 vegna rekstrarársins 2016 verði greiddar 1,00 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 486,6 milljónir ISK. Arðurinn verði greiddur í viku 22.
Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 31. mars 2017, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 4. apríl. Arðleysisdagurinn er 3. apríl.
Samþykkt ársreiknings
Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Hampiðjunnar hf. þann 16. mars 2017. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.
Ársreikningurinn er aðgengilegur hér
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Árið 2016 var afar merkilegt og sérstakt ár fyrir Hampiðjuna því í byrjun ársins var samið um kaup á fyrirtækjasamstæðunni P/f Von í Færeyjum. Með þessum kaupum tvöfaldast velta samstæðu Hampiðjunnar og fyrirtækjum innan hennar fjölgaði úr 15 í 26. Starfsemin er nú í 12 löndum og bættust því við 3 lönd eða Grænland, Færeyjar og Noregur. Í þessum löndum skipta fiskveiðar miklu máli og því stórir markaðir fyrir veiðarfæri auk þess sem mikið laxeldi er í bæði Noregi og Færeyjum. Meðalfjöldi starfsmanna jókst vegna þessarar stækkunar úr 559 í 911.
Kaupin fela í sér töluverða samþættingarmöguleika ásamt miklum tækifærum til að efla eigin framleiðslu á veiðarfæraefnum innan samstæðunnar. Það mun væntanlega skila hlutfallslega hækkaðri EBITDA framlegð á næstu árum.
Sala fyrirtækja innan samstæðunnar jókst að jafnaði frá fyrra ári en Ísland var þó undantekning frá því vegna þess að tveir síðustu mánuðirnir skiluðu minni sölu en árið áður. Þar hafði verkfall sjómanna og útlit fyrir lélega loðnuvertíð töluverð áhrif ásamt því að á árinu 2015 bættust við ný skip í flota landsmanna sem þörfnuðust nýrra veiðarfæra en slíkar sölur voru ekki í sama mæli á nýliðnu ári. Með stækkun samstæðu Hampiðjunnar er lægra hlutfall sölu til viðskiptamanna innanlands en áður og á árinu var það hlutfall um 8% og því er sala til erlendra aðila um 92% af heildarsölunni.
Mikil styrking krónunnar frá miðju síðasta ári ásamt miklum launahækkunum í kjölfar SALEK samkomulagsins hefur töluverð áhrif á rekstrarafkomuna á Íslandi og fyrirséð að kostnaðarauki verður einnig á þessu ári því styrking krónunnar kemur að fullu inn á árinu ásamt fyrirhuguðum launahækkunum í maí. Laun hafa einnig hækkað hjá Hampidjan Baltic í Litháen en framleiðslukostnaður þar er engu að síður afar hagstæður.
Þrátt fyrir að olíuverð hafi farið hækkandi á síðasta ári þá er það enn mjög lágt og það lágt að fjárfestingar í aukinni olíuvinnslu hafa ekki þótt vænlegar. Því dró enn frekar úr sölu á ofurtógum á þann markað en hann er samt enn mikilvægur fyrir Hampiðjunna þótt vægið hafi minnkað við stækkun samstæðunnar.
Á árinu lauk Cosmos, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar í Danmörku, við byggingu nótageymslu í Hirtshals á Jótlandi og rúmar byggingin 8 stórar nætur og samhliða því var búnaður á nótaverkstæðinu endurbættur og er aðstaðan til viðgerða á nótum nú orðin afar góð.“
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.
Viðurkenndur ráðgjafi
Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.