Skip to main content
Financial

Hampiðjan – Ársreikningur 2022 (nasdaq.com)

By 10/03/2023No Comments

Hampiðjan – Ársreikningur 2022

Lykilstærðir

Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.

  • Rekstrartekjur voru 193,8 m€ (172,7 m€).
  • EBITDA var 28,7 m€, en leiðrétt fyrir 1,4 m€ einskiptiskostnaðar við kaupin á Mørenot á árinu þá er hún 30,1 m€, (30,0 m€) af reglulegri starfsemi.
  • Hagnaður ársins nam 14,3 m€ (16,9 m€).
  • Heildareignir voru 295,5 m€ (273,0 m€ í lok 2021).
  • Vaxtaberandi skuldir voru 110,8 m€ (95,9 m€ í lok 2021).
  • Eiginfjárhlutfall var 50,6% (52,8% í lok 2021).
  • Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 1.206 (1.191 árið 2021).

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 193,8 m€ og jukust um 12,2% á milli ára.

EBITDA félagsins lækkaði um 4,2% á milli ára eða úr 30,0 m€ (17,4%) á árinu 2021 í 28,7 m€ (14,8%) á árinu 2022. Leiðrétt EBITDA ársins 2022 fyrir einskiptiskostnaði sem féll til á árinu vegna kaupa félagsins á Mørenot nemur 30,1 m€ (15,5%).   

Hagnaður ársins var 14,3 m€ en var 16,9 m€ á árinu 2021 og nemur lækkun á hagnaði samstæðunnar því um 15,1% á milli ára. Sé leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði sem féll til á árinu vegna kaupa félagsins á Mørenot þá nam hagnaður ársins 15,4 m€ eða lækkun um 8,5% á milli ára.

Efnahagur

Heildareignir voru 295,5 m€ og hafa hækkað úr 273,0 m€ frá árslokum 2021.

Eigið fé nam 149,5 m€, en af þeirri upphæð eru 14,2 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.  

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok ársins 50,6% af heildareignum samstæðunnar en var 52,8% í árslok 2021.

Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 110,8 m€ samanborið við 95,9 m€ í ársbyrjun. Vaxtaberandi skuldir að frádregnum leiguskuldbindingum skv. IFRS 16 nema 98,0 m€ samanborið við 86,1 m€ í ársbyrjun.

Helstu tölur í íslenskum krónum

Miðað við meðalgengi krónunnar gagnvart evru á árinu 2022 þá er velta samstæðunnar um 27,6 milljarðar, EBITDA 4,1 milljarðar og hagnaður 2 milljarðar. Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok árs 2022 þá eru heildareignir 44,7 milljarðar, skuldir 22,1 milljarðar og eigið fé 22,6 milljarður.

Aðalfundur

Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 24. mars 2023 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst fundurinn klukkan 16:00.

Tillaga stjórnar um arðgreiðslu

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2023 vegna rekstrarársins 2022 verði greidd 1,63 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 900 milljónir ISK. Arðurinn verði greiddur í viku 18. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 24. mars 2023, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 28. mars. Arðleysisdagurinn er 27. mars.

Samþykkt ársreiknings

Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Hampiðjunnar hf. þann 9. mars 2022. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðanda félagsins.

Ársreikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

„Salan á síðastliðnu ári var afar góð og veltan jókst um 12,2% á milli ára. Hluti af þeirri söluaukningu er vegna verðlagshækkana en erfitt er að greina hversu mikill hluti af aukningunni skýrist af verðhækkunum einum og sér. Vegna mikils fjölbreytileika í vöruframboði félagsins og breytingum á sölusamsetningu milli ára þá er samanburður ekki auðveldur. Lítið er um staðlaðar vörur því veiðarfæri eru sniðin að þörfum hvers skips fyrir sig og svipað má segja um fiskeldiskvíar sem eru misjafnar eftir staðsetningum og vali hvers fiskeldisfyrirtækis fyrir sig. Það má þó fullyrða að meginhluti aukningarinnar er tilkominn vegna aukinnar sölu í magni.

Ef undan eru skilin framleiðslufyrirtækin tvö í Litháen og móðurfyrirtækið á Íslandi ásamt öðrum eignarhaldsfyrirtækjum þá eru það 19 fyrirtæki sem standa í framlínunni í sölu til útgerðar- og fiskeldisfyrirtækja. Öll þessi fyrirtæki, að undanskildum tveim fyrirtækjunum af þremur í Danmörku, juku mikið við sölu sína á árinu 2022. Aukningin nam allt frá 1% upp í 38% og þar af voru 6 fyrirtæki með aukningu á bilinu 20-38%.

Ástæðuna fyrir því að sala minnkaði í Danmörku má að mestu rekja til Brexit, enda hafa fiskiveiðikvótar færst frá Evrópusambandsríkjum til Bretlands, og að veiðikvótar voru lægri í Danmörku og þá sérstaklega í sandsíli. Á móti kemur að fyrirtækjunum tveimur, Jackson Trawl og Jackson Offshore, sem við eignuðumst í Skotlandi árið 2020, hefur gengið afar vel og vaxið mikið undanfarin 3 ár. Þannig varð salan hjá þeim 38% meiri en sölulækkunin í Danmörku og er það því jákvæða hliðin á Brexitáhrifunum fyrir samstæðu Hampiðjunnar.

Það fyrirtæki í samstæðunni sem sýndi eina mestu söluaukningu er dótturfyrirtækið Hampiðjan Ísland en það sér um veiðarfærasölu hér á Íslandi ásamt því að selja til Færeyja og S-Ameríku. Söluaukningin kom í kjölfar bestu loðnuvertíðar í mörg ár og greinilegt er að útgerðarfyrirtækin vilja vera vel útbúin fyrir komandi loðnuvertíðir. Fyrirtækin í Bandaríkjunum, Kanada, Grænlandi, Færeyjum og Noregi skiluðu svo öll afar góðri söluaukningu.

Þrátt fyrir hagstæðar aðstæður í sölunni þá voru rekstraraðstæður afar óvenjulegar hvað varðar bæði hráefni og orku. Almennt eru fyrirtækin í samstæðunni ekki orkufrek að undanskildu framleiðslufyrirtækinu Hampidjan Baltic í Litháen. Þar finnst einnig mest fyrir verðbreytingum á hráefnum því keypt er inn plastkorn sem notað er til framleiðslu á þráðum og svo einnig tilbúnir nylonþræðir og ofurefnisþræðir.

Hráefnisverðið sem hafði verið afar hátt frá ársbyrjun 2021 hækkaði enn frekar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og var um mitt árið orðið rúmlega 60% hærra fyrir nylon og 70% hærra fyrir polyethylen miðað við meðaltal áranna á undan Covid. Ástæðan fyrir því að plasthráefnaverð hækkaði svona mikið, til viðbótar við háu verði 2021, má að mestu rekja til hækkandi orkuverðs enda er öll plastvinnsla mjög orkufrek. Í sumarlok byrjuðu hráefnisverð að lækka aftur og þau eru nú um 15-30% hærri en fyrir faraldurinn.

Orkan sem Hampidjan Baltic notar er að mestu rafmagn en einnig gas til gufuframleiðslu og húshitunar. Orkukostnaðurinn varð tæplega þrefaldur á árinu 2022 miðað við 2021 og fór úr því að vera 0,9 m€ í 2,6 m€ eða orkukostnaðarhækkun um 1,7 m€. Til að mæta þessum aukakostnaði í framleiðslunni þá var lagt á sérstakt hráefnis- og orkugjald sem mildaði töluvert áhrifin á rekstur fyrirtækisins en til kostnaðarauka kom einnig hækkun á vinnulaunum í Litháen í kjölfar hárrar verðbólgu. Heildaráhrifin á rekstur samstæðunnar vegna orkukostnaðar og vinnulauna nema engu að síður um 1,1 m€ til lækkunar EBITDA. Orkuverð í byrjun þessa árs er miklu mun lægra en 2022 og er nú um 40% hærra en meðaltal áranna 2020-2021.

Almennt má segja að það hafi tekist koma meginhluta af kostnaðarhækkunum út í verðlagið hjá dótturfyrirtækjum Hampiðjunnar. Miðað við leiðrétt EBITDA, fyrir kostnaði við kaupin á Mørenot, þá væri hún 30,1 m€ miðað við 30,0 m€ árið á undan.

Vegna söluaukningarinnar þá lækkar EBITDA hlutfallslega úr 17,4% í 15,5%, miðað við leiðrétt EBITDA. Erfitt reyndist að fylgja eftir kostnaðarverðshækkunum í rauntíma með verðhækkunum því tilboð og föst verð eru oft gefin marga mánuði fram í tímann.

Fylgifiskur ótryggs ástands, þegar hætta er á að vöntun verði á hráefnum eða framleiðsluvörum, er að fyrirtækin okkar verja sig með því að hækka öryggismörk birgða og safna inn á lager svo hægt verði að sinna viðskiptavinum í sjávarútvegi og fiskeldi. Þar verður oft að bregðast skjótt við og alltaf verður að eiga til rétt efni á lager í veiðarfærin og fiskeldiskvíarnar. Á miðju síðasta ári var ljóst að birgðir höfðu aukist hjá netaverkstæðum í samstæðunni en þrátt fyrir góðan ásetning um að lækka birgðir þá reyndist þörfin fyrir að hafa trygga starfsemi þyngra og það varð til þess að birgðir hækkuðu enn frekar fram að áramótum eða um 24% milli ára. Það er þó ekki þannig að birgðaaukningin sé öll í magni heldur hafa verðhækkanir á vörum töluvert að segja og sérstaklega seinni hluta síðasta árs þegar verðhækkanir komu inn að fullum þunga. Það tókst þó fullkomlega á síðasta ári að koma í veg fyrir að framleiðslu seinkaði eða vinna stöðvaðist og það má þakka tímalegum innkaupum og hærri öryggisviðmiðum á lagerum. Birgðir eru of háar miðað við núverandi stöðu og er það verkefni þessa árs að greina birgðir og lagfæra þar sem aukning hefur orðið.

Á árinu lauk nokkrum mikilvægum fjárfestingarverkefnum en fyrir utan fjárfestingu í aukinni afkastagetu í Hampidjan Baltic þá var unnið að því að auka og styrkja fiskeldisþjónustu bæði hér á Íslandi og í Noregi. Fiskeldisþjónustan á Ísafirði er komin í fullan rekstur en þar er hægt að veita fiskeldisfyrirtækjum á Vestfjörðum þjónustu með móttöku fiskeldiskvía, þvotti, viðgerðum, endurlitun ásamt vottun samkvæmt norskum stöðlum, en þeir eru þeir ströngustu sem unnið er eftir. Þá var netaverkstæðið á Ísafirði flutt úr netaverkstæðinu Grænagarði í nýju aðstöðuna og eldra netaverkstæðishúsið selt. Í Finnsnesi í N-Noregi var lokið við að setja upp stærstu fiskeldiskvíaþvottavél sem smíðuð hefur verið og markaði það endapunktinn á umfangsmiklu uppbyggingarverkefni sem staðið hefur yfir undanfarin 3 ár.

Fyrir utan uppbyggingu fiskeldisþjónustunnar hér á landi þá hafa verið opnaðar verslanir með útgerðarvörur á Ólafsvík og í nýja netaverkstæðinu á Ísafirði og einnig var netaverkstæðið á Akureyri endurbætt og glæsileg verslun opnuð á jarðhæðinni. Fyrir eru verslanir í Reykjavík og Vestmannaeyjum svo samtals eru verslanirnar orðnar fimm. Í Tromsø flutti verslun Vónin Refa í nýuppgert 300 m² verslunarhúsnæði og er það um það bil þreföldun á verslunarplássinu og samhliða því var tekið í notkun nýtt skrifstofuhúsnæði í Tromsø.

Afkastaaukningunni í Hampidjan Baltic í Litháen er lokið í bili en þar hefur verið fjárfest í kaðlafléttivélum til að auka framleiðslugetuna í möskvaleggum fyrir flottroll um nær 60% og eru þær vélar komnar í fulla nýtingu og afkastagetan orðin um 7.000 möskvaleggir á viku, en það er sá fjöldi sem þarf í 2-3 flottroll, allt eftir stærð. Fjórföldun á framleiðslugetu af höfuðlínukaplinum DynIce Data, sem nýtur sífellt meiri vinsælda, er lokið og einnig er aukning um 17% á fléttingu á netagarni komin í gagnið. Í ársbyrjun var tekið í notkun afar fullkomið 36 metra langt gufuþrýstitæki til að strekkja og hitameðhöndla nylon net sem mest eru notuð í flottroll og hefur það gefið mjög góða raun.

Vöruþróun er stöðugt sinnt og á síðasta ári byrjuðu tvö metnaðarfull vöruþróunarverkefni að skila tekjum en það eru einkaleyfisvörðu tógin DynIce Power Warp sem er ofurtóg með koparleiðurum og TechIce ofurtóg fyrir krana og spil. DynIce Power Warp er komið í notkun hjá fyrirtækinu AirSeas en það fyrirtæki hefur þróað flugdreka til að nota vindafl til að draga fragtflutningaskip áfram og minnka með því olíunotkun. Fyrstu sölur TechIce, sem er ofurtóg fyrir spil og sérstaklega hannað með miklu beygjuþoli undir álagi og til að þola háan hita í notkun, voru á síðasta ári og nam salan strax á fyrsta ári um 1,6 m€ sem var mjög ánægjulegt og framar væntingum.

Stærsta verkefni ársins var hinsvegar kaupin á norska félaginu Mørenot en samningar við framtakssjóðinn FSN hófust síðastliðið vor og lauk með undirskrift um miðjan nóvember. Í kjölfarið þurfti að fá samþykki samkeppniseftirlita Íslands og Færeyja. Bæði samkeppnisyfirvöldin samþykktu samrunann án skilyrða undir lok janúar og var því hægt að ganga endanlega frá samningum í byrjun febrúar. Vinna við samþættingu og að koma rekstri Mørenot í betra horf hófst strax eftir það og er nú unnið ákaft að ýmsum breytingum og hagræðingaraðgerðum. Samþætting og að ná fram fullri samlegð tekur eflaust 2-3 ár en miklir möguleikar eru fyrir hendi og mikill vilji hjá starfsmönnum og stjórnendum Mørenot að takast á við þau verkefni með nýjum eigendum.

Starfsmenn Hampiðjunnar voru að meðaltali 1.206 á árinu og fjölgaði því um 15 úr 1.191 starfsmanni árið á undan. Á síðasta ári störfuðu 100 starfsmenn á Íslandi sem er eilítil aukning frá fyrra ári. Af heildinni eru nú rúmlega 8% starfa hér á landi. Sem fyrr eru fjölmennustu starfsstöðvarnar í Litháen.   Með Mørenot fer starfsmannafjöldinn í um 2.000 manns í ár og þar af verða um 750 starfsmenn í Litháen.    

Hampiðjan er nú skráð á First North en ætlunin er að flytja viðskipti með hlutabréfin á aðallista Nasdaq í vor og bjóða út aukið hlutafé til að greiða niður skuldir. Mørenot er töluvert skuldsett og fjármagna þarf frekari uppbyggingu afkastagetu Hampidjan Baltic til að geta sinnt þörf Mørenot fyrir net, kaðla og ofurtóg.

Lóðrétt samþætting og virðisaukakeðja, sem nær frá innkaupum á plastkorni til þráðagerðar og til fullbúinna veiðarfæra af tæknilega bestu og vönduðustu gerð, er einn af hornsteinum viðskiptamódels Hampiðjunnar og kaupin á Mørenot skapa ótal spennandi tækifæri til að styrkja virðiskeðjuna og ná fram meiri rekstrarhagnaði á komandi árum.“

Nánari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.

Viðurkenndur ráðgjafi

Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.



Hampiðjan hf. Ársreikningur 2022