Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
Árið 2024
- Rekstrartekjur ársins voru 318,8 m€ (322,1 m€)
- EBITDA af reglulegri starfsemi var 37,4 m€ (37,5 m€)
- Hagnaður ársins nam 14,0 m€ (11,7 m€)
- Heildareignir voru 509,5 m€ (490,0 m€ í lok 2023)
- Vaxtaberandi skuldir voru 178,6 m€ (168,0 m€ í lok 2023)
- Handbært fé var 41,4 m€ (53,0 m€ í lok 2023)
- Eiginfjárhlutfall var 53,6% (55,2% í lok 2023)
Fjórði ársfjórðungur 2024
- Rekstrartekjur ársfjórðungsins voru 79,0 m€ (75,0 m€)
- EBITDA af reglulegri starfsemi á ársfjórðungnum var 8,6 m€ (7,0 m€)
- Hagnaður ársfjórðungsins nam 4,8 m€ (0,4 m€)
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 318,8 m€ og lækkuðu um 1,0% frá fyrra ári.
EBITDA félagsins var 37,4 m€ samanborið við 37,5 m€ á árinu 2023 en hlutfallið 11,7% af tekjum hélst óbreytt.
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld á árinu nema 6,4 m€ til gjalda samanborið við 8,3 m€ til gjalda fyrir sama tímabil í fyrra. Fjáreignatekjur aukast um 2,1 m€ á milli ára eða frá 2,6 m€ á árinu 2023 í 4,8 m€ á árinu 2024. Megin skýring á þessari breytingu er hærri vaxtatekjur af bankainnistæðum heldur en á fyrra ári. Fjármagnsgjöld og gengismunur voru á svipuð á milli ára.
Hagnaður ársins var 14,0 m€ en var 11,7 m€ á árinu 2023.
Efnahagur
Heildareignir voru 509,5 m€ og hafa hækkað úr 490,0 m€ í árslok 2023.
Eigið fé nam 273,2 m€, en af þeirri upphæð eru 12,9 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok ársins 53,6% af heildareignum samstæðunnar en var 55,2% í árslok 2023.
Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 178,6 m€ samanborið við 168,0 m€ í ársbyrjun.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.
Í dag verður haldin fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins, https://hampidjan.is/fjarmal/streymi
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Árið 2024 var að mörgu leyti gott fyrir Hampiðjuna en ekki án áskorana því ytri aðstæður voru krefjandi á sumum mörkuðum og höfðu áhrif á rekstur félagsins.
Veltan á árinu 2024 varð tæpar 319 m€ samanborið við 322 m€ árið áður eða söluminnkun um 1,0%. Fyrir veltunni standa sömu félög og árið áður nema hvað að norska félagið Fiizk Protection bættist í samstæðuna á haustmánuðum og skilaði um 1,0 m€ sölu fram að áramótum.
Sem ástæður fyrir þessum samdrætti má meðal annars nefna langt verkfall í Færeyjum síðastliðið sumar, sölutregðu á fiskeldisbúnaði í Noregi, áhrif stríðsins í Úkraníu á verkefni í fiskeldi vegna eignaraðildar rússneskra félaga, aukinni verðsamkeppni í fiskeldisbúnaði, endurteknum niðurskurði á kvóta í Barentshafi og loðnubresti á Íslandsmiðum.
Ef litið er á hvernig salan hefur þróast landfræðilega má sjá að í veiðarfærum hefur orðið samdráttur á Írlandi þar sem áhrif Brexit eru nú komin að fullu fram. Hins vegar hefur salan í Skotlandi, þar sem við keyptum 80% hlut í félaginu Jackson Trawl árið 2020, vegið upp Brexitáhrif undanfarinna ára bæði í Danmörku og á Írlandi. Í Noregi varð samdráttur eins og fyrr segir vegna kvótaminnkunar í Barentshafi. Í Grænlandi og við norðanvert Kyrrahafið hefur léleg rekstrarafkoma útgerðarfélaga dregið úr kaupum á veiðarfærum.
Hvað fiskeldið varðar á árinu 2024 þá munaði mestu um sölur Morenot Mediterranean á Spáni sem töpuðust við Miðjarðarhafið og í Mið-Austurlöndum vegna áhrifa stríðsins í Úkraínu og vaxandi samkeppni á mörkuðum fyrir fiskeldiskvíar við N-Atlantshafið. Sala til fiskeldisins á þessu svæði byggist að mestu á stórum verkefnum sem innifela uppsetningu eldisstöðva meðan salan á norðurslóðum er meira vegna endurnýjunar búnaðar sem er til staðar. Í lok ársins var gengið frá samningum um ein fimm stór verkefni í fiskeldi sem til samans munu skila tekjum í kringum 37,7 m€. Meginhluta þeirra verkefna á að skila á þessu ári en það stærsta þeirra mun ná inn á árið 2026. Verkefnastaðan er því góð á Spáni og að auki eru allar þær starfsstöðvar sem sinna framleiðslu á fiskeldiskvíum í Póllandi og Litháen fullbókaðar fram á sumar. Það er afar ólíkt stöðunni í byrjun síðasta árs þegar mjög lítið var bókað af pöntunum.
EBITDA félagsins stóð nær í stað og varð tæpar 37,4 m€ á móti rúmum 37,5 m€ á árinu á undan og hlutfallið fyrir bæði árin varð það sama eða 11,7%.
Fjármagnskostnaður ársins varð umtalsvert lægri en á árinu 2023 eða rúmar 6,4 m€ samanborið við rúmar 8,3 m€ eða lækkun sem nemur 1,9 m€. Ástæðan er vaxtatekjur af þeim hluta hlutafjáraukningarinnar sumarið 2023 sem fyrirhugaður var til uppbyggingar og afkastaaukningar í Litháen.
Handbært fé frá rekstri nam 23,7 m€ en árið áður var sú tala 19,1 m€. Birgðir samstæðunnar hækkuðu aðeins úr 125,8 m€ í 126,7 m€ og því hefur ekki gengið sem skyldi að minnka birgðirnar eins og ætlað var. Ástæða hækkunar milli ára eru birgðir sem koma inn við kaup á FiiZK Protection. Sé tekið tillit til þeirra þá lækka birgðir um 0,5 m€ á milli ára. Markmið um lækkun er óbreytt og áfram verður unnið að lækkun þeirra þótt árangurinn hafi látið á sér standa.
Hagnaður samstæðunnar eftir skatta hækkaði umtalsvert frá árinu áður eða úr rúmum 11,7 m€ í rúmar 14,0 m€ eða um 19,3%. Þar munar mest um hærri fjáreignatekjur sem námu 2,1 m€ og lægri tekjuskatti um rúmar 0,4 m€.
Innan samstæðu Hampiðjunnar eru nú 47 fyrirtæki. Ef undan eru skilin framleiðslufyrirtækin 5 í Litháen, Póllandi og Kína og móðurfyrirtækið á Íslandi ásamt öðrum eignarhaldsfyrirtækjum þá eru það 28 fyrirtæki sem standa í framlínunni í sölu til útgerðar- og fiskeldisfyrirtækja.
Á síðasta ári lauk byggingu netaverkstæðis Cosmos í Skagen í Danmörku og er það búið að vera í fullri notkun síðan í september og hefur reynst afar vel. Það er 4.800m² að stærð og búið fullkomnasta búnaði sem völ er á fyrir netaverkstæði. Þessa mánuðina er unnið að uppbyggingu fiskeldisþjónustustöðvar Vonin Scotland á eynni Skye vestur af Skotlandi og miðar verkefninu vel og stöðin ætti að vera starfhæf í lok sumars. Í Álasundi er nýlega hafin viðbygging við skrifstofur Mørenot Fishery og sú aðstaða ætti einnig að vera tilbúin næsta sumar. Færist þá skrifstofustarfsemi úr leiguhúsnæði yfir í húsnæði í eigu félagsins.
Á árinu var haldið áfram að hagræða í rekstri samstæðunnar og þá sérstaklega í þeim rekstri sem tengist Mørenot. Þannig var starfsemi Morenot Ísland sameinuð Hampiðjunni Ísland og nú er unnið að því að draga saman rekstur Mørenot Denmark og flytja þá starfsemi til Noregs. Einnig er unnið að sameiningu tveggja eignarhaldsfélaga í Noregi við Mørenot Fishery annars vegar og Mørenot Aquaculture hins vegar. Í framleiðslufyrirtækinu Mørenot Baltic, sem hefur á höndum framleiðslu á fiskeldiskvíum og toghlerum, er verið að skipta rekstrinum upp og fella toghleraframleiðsluna beint undir Mørenot Fishery, þar sem hún á réttilega heima. Auk þessara breytinga þá hefur verið unnið að innri hagræðingu hjá báðum þessum félögum í Noregi.
Í aðdraganda hlutafjárútboðsins var kynnt áætlun um að byggja frekar upp í Litháen og auka afkastagetuna þar, sérstaklega fyrir fiskeldishlutann, en þrennt varð til að breyta þeirri fyrirætlan á síðasta ári.
Fyrst má nefna að samkeppni á aðalmörkuðunum fyrir fiskeldi í Noregi, Færeyjum og Skotlandi breyttist í ársbyrjun 2024 þegar indverska félagið Garware sleit áratugalöngu samstarfi við norska fyrirtækið Selstad og hóf að selja beint inn á þessa markaði. Verðsamkeppni jókst í kjölfarið og um tíma varð erfitt að ná sölum sem berlega mátti greina á fyrstu þrem fjórðungum ársins.
Í öðru lagi má nefna að efnisval í fiskeldiskvíar hefur verið að breytast og hraði þeirrar breytingar hefur verið að aukast undanfarin tvö ár. Þessi breyting felst í því að í stað mjúkra hnútalausra nylon- og ofurefnaneta eru að koma stíf hnútanet úr polyethylene. Kostur þeirra er að þau þola betur þvott með róbótum neðansjávar og erfiðara er fyrir seli að bíta sig í gegnum netin. Vegna stífleikans þá er ekki hægt að sauma netin saman í kvíar með saumavélum heldur verður að sauma allt saman í höndum með netanálum. Það þýðir að vinnutímafjöldi fyrir hverja kví margfaldast og þar með vinnulaunakostnaðurinn.
Í þriðja lagi þá hafa laun í Litháen farið hratt hækkandi og þannig hækkuðu þau um 15,1% árið 2023, 10,0% 2024 og nú um áramótin 12,3%. Launabreytingarnar eru þannig til komnar að um hver áramót leggur ríkisstjórnin í Litháen fram frumvarp um hækkun lágmarkslauna sem samþykkt eru af þinginu. Reyndin hefur verið sú að launbreytingin skilar sér að mestu upp eftir launaskalanum. Ekkert lát virðist ætla að verða á þessum launahækkunum á næstu árum og stefna stjórnvalda virðist vera að hækka laun meðan atvinnuleysi eykst ekki í kjölfar hækkananna.
Í stað þess að stefna á frekari uppbyggingu í Litháen þar sem Hampiðjan er með þrjár starfsstöðvar, Hampidjan Baltic sem framleiðir net og ofurtóg, Vonin Lithuania sem framleiðir veiðarfæri og fiskeldiskvíar og Mørenot Baltic sem framleiðir fiskeldiskvíar og toghlera, þá var ákveðið að byggja upp starfsemi á Indlandi þar sem allar aðstæður til framleiðslu eru afar hagstæðar, byggingaverð lágt og vinnulaunin mun lægri en í Litháen.
Mørenot hefur verið í samstarfi við indverska fyrirtækið Kohinoor í mörg ár og það fyrirtæki hefur framleitt og selt kaðla og stíf polyethylene net í fiskeldiskvíar Mørenot og byggt upp netaverkstæði til að framleiða fiskeldiskvíar. Kohinoor er einn stærsti framleiðandi neta og kaðla á Indlandi með ársframleiðslu á um 14.300 tonnum af köðlum og netum. Starfsmenn fyrirtækisins eru rúmlega 700 og starfsstöðvarnar eru þrjár, tvær neta- og kaðlaverksmiðjur í Selu og netaverkstæði í Jalna og er samanlagt flatarmál þeirra tæplega 60.000 m².
Þetta samstarf stóð á tímamótum því samstarfssamningur fyrirtækjanna var að renna út síðastliðið haust. Viðræður hófust á síðasta ári um framhaldið og þær leiddu til þess að samningar náðust um kaup Hampiðjunnar á 75,1% hlut í Kohinoor.
Stefnt er að endanlegum frágangi kaupanna um miðjan apríl en á þeim tíma ættu allir fyrirvarar vegna samninganna að vera uppfylltir og frágengnir. Rekstur Kohinoor mun að öllum líkindum koma inn í samstæðuna frá 1. febrúar og búast má við að það bætist við a.m.k. 27 m€ við veltuna á þessu ári og þar til viðbótar bætist velta norska félagsins Fiizk Protection sem er áætluð um 10 m€ á árinu.
Með kaupunum á Kohinoor tryggir Hampiðjan sér ekki bara einungis hagkvæma framleiðslu á fiskeldiskvíum til framtíðar heldur einnig stórt og öflugt framleiðslufyrirtæki á köðlum og netum sem gefur mikla vaxtarmöguleika á núverandi mörkuðum og þeim mörkuðum sem ekki hefur verið hægt að sækja inn á með vörur framleiddum í Evrópu.
Unnið er að því að tryggja land fyrir stækkun Kohinoor og fyrirhugað að það verði um 12 hektarar sem hentar fyrir um 80.000 m² byggingarmagn en fyrsta skref yrði að byggja um 20.000 m². Byggingartími iðnaðarhúsnæðis á Indlandi er ekki langur og það tekur um 7-8 mánuði að ljúka byggingu frá fyrstu skóflustungu. Byggingarverð er afar hagstætt eða um 200 €/m² og má sem dæmi nefna að fermetraverð á sambærilegu húsi í Litháen væri um 800 €/m² en hér á Íslandi væri byggingarkostnaðurinn um 2.500 €/m².
Á miðju þessu ári er því hægt að ráðast í mikla hagræðingu á framleiðslustarfsemi samstæðunnar með tilfærslu á framleiðslu hnútalauss nets í Noregi og hjá Hampidjan Baltic í Litháen til Indlands. Þar er til staðar hentugt húsnæði fyrir hnýtingarvélarnar og nú er unnið að styrkingu gólfa fyrir vélarnar. Yfirleitt er fyrri hluti ársins annasamastur í framleiðslu og sölu á efni í fiskeldiskvíar og því er hentugra að flytja vélakostinn þegar kemur fram á sumarið.
Í kjölfarið er stefnt að flutningi framleiðslu á fiskeldiskvíunum til Indlands og samhliða því að samsetning á kvíum eykst hjá Kohinoor verður dregið úr starfsemi Mørenot Baltic í Litháen, Poldan í Póllandi og Mørenot Mediterranean á Spáni.
Starfsmenn Hampiðjunnar voru að meðaltali 1.941 á árinu en voru 1.947 árið áður og fækkaði því um 6 störf. Um 59% starfsmanna hjá samstæðunni eru karlar og 41% konur. Á síðasta ári störfuðu 109 starfsmenn á Íslandi sem er eilítil auking frá fyrra ári. Af heildinni eru nú tæp 6% starfa samstæðunnar hér á landi. Sem fyrr eru fjölmennustu starfsstöðvarnar í Litháen en þar starfa nú um 750 starfsmenn. Með Kohinoor mun starfsmönnum væntanlega fjölga um 700 á þessu ári.
Hampiðjan er skráð á aðallista Nasdaq Iceland og í lok ársins 2023 voru hluthafar 2.665 en þeim hefur heldur fækkað frá hlutafjárútboðinu sumarið 2023 og voru um áramótin 2024 2.282.
Nú eru liðin tæp tvö ár frá hlutafjárútboðinu og í aðdraganda útboðsins var kynnt að það myndi taka um 5 ár að ná fram allri hagræðingu við kaupin á Mørenot. Sú áætlun er óbreytt þrátt fyrir að tíma hafi tekið að hverfa frá fyrirætlunum um frekari uppbyggingu í Litháen, semja um kaupin á Kohinoor og ákveða að byggja upp á Indlandi í staðinn.
Vaxtar- og hagræðingarmöguleikarnir eru nú meiri en áður og framundan er spennandi tímabil uppbyggingar og hagræðingar og afraksturinn ætti að sýna sig að hluta til undir lok þessa árs og að miklu leyti næsta ár þegar sú starfsemi, sem til stendur að flytja, er komin að fullu til Indlands.“
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.