Skip to main content
Financial

HAMPIÐJAN HF. BÝÐUR EIGNARHLUT SINN Í HB GRANDA HF. TIL SÖLU

By 01/05/2016No Comments

Í tengslum við kaup Hampiðjunnar hf. á hlutafé í P/F Von í Færeyjum, hefur Hampiðjan hf.  í dag ákveðið að bjóða til sölu hlutafé sitt í HB Granda hf., kt. 541185-0389 til heimilis að Norðurgarði 1, Reykjavík, en sala hlutafjárins mun fara fram með útboði. Hampiðjan hf. hefur nú þegar tryggt fulla fjármögnun kaupanna á P/F Von, en hefur engu að síður áhuga á að kanna möguleikann á að fjármagna kaupin að hluta til eða í heild með andvirði sölu þess hlutafjár í HB Granda hf. sem nú er í eigu félagsins.

Samkvæmt ofangreindu verða boðnir til sölu alls 160.074.981 hlutir í HB Granda hf. sem nú eru í eigu Hampiðjunnar hf. Er hver og einn hlutanna 1 króna að nafnverði. Samsvara hlutirnir 8,79% af skráðu hlutafé HB Granda hf.                                  

Hampiðjan hf. hefur ráðið fjárfestingabankasvið Arion banka hf. til að hafa umsjón með framkvæmd útboðsins. 

Lágmark hvers tilboðs í útboðinu verður 500.000 hlutir í HB Granda hf., en lágmarksgengi í útboðinu verður 35,6 krónur á hlut.  Tilboðum skal skila á sérstöku tilboðsblaði sem fjárfestar geta nálgast hjá umsjónaraðila útboðsins.

Tilboðsfrestur rennur út klukkan 16.00 (GMT) þann 3. maí 2016 og verður tilkynnt um niðurstöðu útboðsins í fréttakerfi Nasdaq kauphallar eigi síðar en klukkan 9.30 (GMT) þann 4. maí 2016. Nánari upplýsingar um framkvæmd og tilhögun útboðsins og útboðsskilmála gefur að finna í meðfylgjandi viðhengi.

Með vísan til c-liðar, 1. töluliðar, 1. málsgreinar 50. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti verður ekki gefin út lýsing vegna útboðsins.

Athygli fjárfesta er vakin á því að stjórnarformaður Hampiðjunnar hf., Vilhjálmur Vilhjálmsson, er jafnframt forstjóri HB Granda hf. og að einn stjórnarmaður Hampiðjunnar hf., Kristján Loftsson, er einnig stjórnarformaður HB Granda hf. Jafnframt er Kristján stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Vogunar hf. sem á 37,61% hlut í Hampiðjunni hf. og 33,51% hlut í HB Granda hf. og formaður stjórnar Fiskveiðafélagsins Venus hf., sem á 14,59% eignarhlut í Hampiðjunni hf. og 0,65% eignarhlut í HB Granda hf. Vogun hf. er að nær öllu leyti í eigu Hvals hf., þar sem Fiskveiðafélagið Venus hf. er stærsti hluthafinn með 39,5% eignarhlut.  Loks eru þeir Vilhjálmur og Kristján báðir hluthafar í HB Granda hf. og Hampiðjunni hf. í eigin nafni.

 

Nánari upplýsingar veita:

Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar hf. í síma 664 3361 og

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstöðumaður markaðsviðskipta á fjárfestingabankasviði Arion banka hf., í síma 856-7170.

Útboðsskilmálar Hampiðjunar