Skip to main content

,,Það kann að hljóma eins og klisja en sannleikurinn er sá að þetta nýja hús gjörbreytir allri starfsemi til hins betra.  Að því leyti er það bylting fyrir okkur,“ segir Jón Einar Marteinsson, veiðarfærameistari og rekstrarstjóri Hampiðjunnar í Neskaupstað, en starfsemi hófst í nýju og glæsilegu húsi félagsins 23. janúar sl.  Formleg opnunarvígsla verður síðar.

Nýja húsið er að grunnfleti 2.200 fermetrar að stærð og með skrifstofum og starfsmannaðstöðu, sem eru á efri hæð, er heildarstærð hússins um 2.700 fermetrar.  Það er 85 metra langt og 26 metra breitt og rúmar það veiðarfæraverkstæði, gúmmíbátaþjónustu og veiðarfærageymslu.  Við verkstæðið er 50 metra langur viðlegukantur þar sem veiðarfærin eru tekin beint frá skipum inn á verkstæði eða í veiðarfærageymslu.


Nýja húsið er byggt á nýrri uppfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar og sá Nestak ehf. í Neskaupstað um byggingu hússins. Hampiðjan fékk húsið afhent um sl. áramót en að sögn Jóns Einars hefur tíminn síðan þá verið nýttur til flutninga. ,,Það er allt tilbúið nema nótageymslan. Hana fáum við afhenta í mars n.k. og þá munum við geta tekið næturnar í hús,“ segir Jón Einar.

Nýbyggingin leysir af hólmi eldra hús, sem byggt var á árunum 1964 til 1966.  Nýja húsið er á allan hátt mun betra og kostirnir sem blasa við eru fjölmargir.  Fyrir það fyrsta er verkstæðið mun stærra og öll starfsemin á einu gólfi og lofthæðin er yfirdrifin. En í gamla húsinu var starfsemin á þremur hæðum. Vinnusalurinn er mun lengri en áður og öll vinnuaðstaða batnar til muna.  Nýja verkstæðið er mjög vel tækjum búið og trúlega eitt best búna veiðarfæraverkstæðið á Íslandi, segir Jón Einar.


Á veiðarfæraverkstæðinu eru þrjár vinnslubrautir þar sem hægt er að vinna í mörgum veiðarfærum samtímis.  
Á nótabraut eru fjórir 5 tonna brúkranar með kraftblökkum og því góð aðstaða og mikill sveigjanleiki í nóta og trollvinnu á nótabrautinni. Loðnu -og síldarnætur hafa stækkað mikið á undanförnum árum og var orðið erfitt að vinna með næturnar í gamla húsinu. Á nýja verkstæðinu eru kraftblakkirnar stærri, breiðari og miklu kraftmeiri en þær gömlu og lofthæðin mun meiri og öll vinna við nætur því auðveldari.
Flottrollsbrautin er útbúin  með 25 rúmmetra flottrollstromlum í sitthvorum enda hússins. Núna getum við unnið í risastórum flottrollum innandyra á 75 metra vinnusvæði með 9 metra lofthæð, en vorum áður að vinna við þau utandyra í alls konar veðrum.
Síðan er þriðja brautin með fjórum kraftblökkum, þar sem hægt er að vinna í botntrollum, flottrollspokum og öðrum tilfallandi verkefnum.
Það er óhætt að segja að hér sé um algjöra umbyltingu að ræða í vinnubrögðum og aukinni hagkvæmni fyrir jafnt viðskiptavini sem og starfsmenn verkstæðisins.


Síðan er það ekki síður bylting, að geta geymt öll veiðarfæri innanhúss, sem áður voru geymd utandyra.  Í veiðarfærageymslunni eru 26 geymsluhólf fyrir  nætur og önnur veiðarfæri og er hvert hólf 200 rúmmetrar.  Veiðarfærageymslan er einnig mjög vel tækjum búin og eru í henni sex brúkranar með kraftblökkum, ásamt föstum kraftblökkum við útvegg, sem sjá um að spóla veiðarfærunum inn og út úr geymslunni frá skipum við bryggju, eða inn á veiðarfæraverkstæði.

Starfsemi og þjónusta Hampiðjunnar í Neskaupstað er fjölþætt.  Í viðbót við veiðarfæraþjónustu er rekin skoðunarstöð fyrir gúmmíbjörgunarbáta, ásamt víraverkstæði og víðtækri þjónustu við sveitarfélög, verktaka og aðra framkvæmdaaðila, með sölu á hífibúnaði og tengdum vörum. Einnig er í nýja húsinu verslun með útgerðarvörur og sjóvinnufatnað frá MarWear.


Þó viðskiptamannahópurinn hjá veiðarfæraverkstæðinu í Neskaupstað sé stór og fjölbreyttur, er eðlilega mikil kjölfesta í heimaflotanum hér á Austfjörðum. Hingað leita mörg aðkomuskip, jafnt íslensk og erlend, og mikilvægi Neskaupstaðar á bara eftir að aukast. Við erum níu til tíu manns sem unnið hafa hjá Hampiðjunni í Neskaupstað og ég er sannfærður um að okkur mun fjölga á komandi árum,“ segir Jón Einar Marteinsson.