Morenot Ísland, dótturfélag Hampiðjunnar, hefur nú verið sameinað Hampiðjan Ísland. Sameiningin er mikilvægt skref í því að straumlínulaga rekstur, ná fram rekstrarlegri hagkvæmni og auka vöru- og þjónustuframboð Hampiðjunnar Ísland þegar kemur að útgerðarvörum og mæta þannig enn betur þörfum sjávarútvegsins á Íslandi.
Morenot Ísland ehf. var upprunalega stofnað 1978 undir heitinu Sjóvélar ehf. og fyrirtækið á sér því langa sögu í íslenskum sjávarútvegi. Í byrjun árs 2017, eftir að Mørenot Fishery í Noregi eignaðist meirihluta í fyrirtækinu, var nafninu breytt í Morenot Ísland ehf. Hampiðjan eignaðist Mørenot samstæðuna í Noregi á síðasta ári og þá varð Morenot Ísland dótturfyrirtæki Hampiðjunnar.
Markmið Morenot Ísland hefur verið að vera leiðandi í þjónustu og sölu á vörum fyrir línuflotann með Dyrkorn fiskilínunni og Catch krókunum og hefur það byggt upp sterka stöðu á íslenskum markaði. Öll vörumerki fyrirtækisins eru rótgróin hér á landi auk þess sem fyrirtækið þróar og framleiðir útbúnað til línuveiða, línubeitningavélar, línubursta og rafdrifin línuspil sem hafa reynst afar vel.
Hampiðjan Ísland er þekkt fyrir breitt vöruúrval í veiðarfærum og rekstrarvörum til útgerðar og nú mun það aukast enn frekar með þeim vörum sem Morenot Island hefur boðið. Þessi sameining ásamt sameiningu rekstrarvörudeildar Voot í síðasta mánuði við Hampiðjan Ísland gerir Hampiðjan Ísland að enn öflugri birgja fyrir íslensk útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki og fyrirtækið sinnir nú þörfum þeirra allra, allt frá þeim smæstu til þeirra stærstu.
Verslanir Hampiðjunnar í Reykjavík, Ísafirði, Neskaupstað og Vestmannaeyjum munu áfram vera mikilvægir miðpunktar fyrir þjónustu og dreifingu vara og verslanirnar á Akureyri og í Ólafsvík munu áfram þjóna sínum svæðum, með áherslu á sérhæfðar vörur fyrir sín bæjarfélög.
Rekstur og vöruhús sameinað fyrirtækis verður staðsett í höfuðstöðvum Hampiðjunnar á Skarfabakka í Sundahöfn og tilfærslan mun ekki fela í sér miklar breytingar fyrir viðskiptavini og birgja.