Lykilstærðir Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur fyrrihluta síðasta árs í sviga.
Rekstur Rekstrartekjur samstæðunnar voru 87,6 m€ og hækkuðu um 8,6% frá fyrstu sex mánuðum fyrra árs. EBITDA félagsins hækkaði um 12,3% á milli tímabila eða úr 14,0 m€ á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 í 15,7 m€ á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Hagnaður tímabilsins var 9,0 m€ en var 7,9 m€ fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2020. Efnahagur Heildareignir voru 260,1 m€ og hafa hækkað úr 246,6 m€ í árslok 2020. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 52,0% af heildareignum samstæðunnar en var 52,3% í árslok 2020. Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is. Hjörtur Erlendsson, forstjóri: „Velta samstæðu Hampiðjunnar á fyrri helmingi ársins jókst um 8,6% miðað sama tímabil í fyrra. Aukningin skýrist að hluta til vegna áhrifa Covid-19 faraldursins á tölur fyrra árs. Það ár var samdráttur í tekjum um 5,5% miðað við sama tímabil ársins 2019 en rétt er að hafa í huga að síðasta ár í heild sinni skilaði sömu sölu og árið áður. Veltuaukning á fyrri hluta þessa árs varð á Írlandi, Kanada, Ástralíu, Færeyjum, Noregi, Bandaríkjunum og Skotlandi en á móti dróst veltan saman á Nýja Sjálandi og Kanaríeyjum og einnig í Danmörku eftir metsölu síðasta árs. Mikil umskipti hafa átt sér stað í sölutekjum dótturfélagsins Hampiðjan Ísland eftir erfitt síðasta ár sem einkenndist af loðnuleysi og að annar meginmarkaður fyrirtækisins, Rússland, lokaðist nær alveg fyrir sölum vegna Covid og gengisfalls rúblunnar í fyrra. Nú veiðist aftur loðna við Íslandsstrendur og afar góðar sölur hafa verið til Rússlands í ár. Starfsemi Hampiðjunnar nær nú til 15 landa og eru starfstöðvarnar orðnar 44. Fjöldi fyrirtækjanna í samstæðunni hjálpar til við að jafna út sölu og afkomu milli ára því þótt samdráttur verði á einu svæði getur orðið aukning á öðrum. Af sölutekjum Hampiðjunnar á síðasta ári komu um 87% erlendis frá. Hampiðjan hefur ekki farið varhluta af hækkunum á hráefnisverðum frekar en önnur fyrirtæki en mikilvægustu hráefnin eru polyethylene plastefni og nylon þræðir ásamt ofurefnum sem eru með sama styrk og stál. Ofurefnin hafa ekki hækkað í verði en hinsvegar hafa hin tvö hráefnin hækkað mjög mikið í verði og framboð verið takmarkað. Hækkun á útistandandi viðskiptakröfum og samhliða því hækkun á viðskiptaskuldum skýrist alfarið af góðri sölu í lok tímabilsins og eru þessir liðir yfirleitt töluvert hærri á miðju ári en um áramót. EBITDA samstæðunnar eykst um 12,3% á milli ára og er nú, sem hlutfall af sölu, 18,0% samanborið við 17,4% á fyrrihluta síðastliðins árs. Hagnaður félagsins eykst einnig á milli tímabila og er 9,0 m€ samanborið við 7,9 m€ áður. Enn eru möguleikar á hagræðingu til staðar innan samstæðunnar sem felast í sölum á efnum frá framleiðslufyrirtækinu Hampidjan Baltic til annara fyrirtækja innan samstæðunnar. Vélafjárfestingar ársins hafa að mestu snúið að fiskeldisþjónustu og þá helst í N-Noregi og í Færeyjum en á þessum stöðum hefur verið þörf á því að stækka þvottavélalínur fyrir fiskeldiskvíar og vatnshreinsibúnað sem fylgir því. Einnig hefur verið fjárfest í fullkomnari netastrekkitækjum í Hampidjan Baltic í Litháen sem ásamt núverandi búnaði munu tryggja forystu Hampiðjunnar í gæðum nylonneta til fiskveiða“. Fjárhagsdagatal Ársuppgjör fyrir árið 2021 – 10. mars 2022 Nánari upplýsingar Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361. Viðurkenndur ráðgjafi Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.
|
|