Fyrir skömmu var gengið frá kaupum Hampiðjunnar Group á veiðarfærahluta kanadíska fyrirtækisins North Atlantic Marine Services & Supply (NAMSS). Kaupin eru í nafni dótturfyrirtækisins Hampidjan Canada, en með þeim styrkir félagið verulega stöðu sína á veiðarfæramarkaðnum á austurströnd landsins.
Að sögn Hjartar Erlendssonar, forstjóra Hampiðjunnar, fylgja í kaupunum þrjú netagerðarverkstæði NAMSS. Það syðsta er í Dartmouth, sem er útborg Halifax á Nova Scotia, annað er í St. John´s á Nýfundnalandi og það þriðja er í Port aux Chroix sem er nyrst á Nýfundnalandi. Það þjónar einnig útgerðum í Labrador. Starfsemi verkstæðanna er að mestu tengd veiðarfæragerð, viðgerðum og sölu á útgerðarvörum.
,,Þessi kaup styrkja stöðu okkar á þessum mikilvæga markaði. Hampidjan Canada var fyrir með netagerðarverkstæði í Spaniard´s Bay á Nýfundnalandi. Með kaupum okkar á færeyska fyrirtækinu Vónin í fyrra eignuðumst við Vónin Canada og þar með netagerðarverkstæði félagsins á Nýfundnalandi,“ segir Hjörtur Erlendsson.
David Kelly, framkvæmdastjóri Hampidjan Canada, segir að fyrir kaupin hafi netaverkstæðið í Spaniard´s Bay séð um þjónustu við útgerðarfyrirtæki á Nýfundnalandi og í Labrador en þar starfa átta manns. Með kaupunum bætast við 15 manns sem starfað hafa í Dartmouth í Nova Scotia og í St John´s og Port Au Choix á Nýfundnalandi og í Labrador.