Okkur er því ánægja að tilkynna að Marthe Amundsen Brodahl hefur verið ráðin yfirmaður sjálfbærnimála hjá Hampiðjunni. Fyrir kaup Hampiðjunnar á Mørenot starfaði hún að sömu málum þar og hefur í því öðlast mikla reynslu og þekkingu á sjálfbærnimálum innan okkar iðnaðar.
Marthe er menntuð sem viðskipta- og tæknistjóri með áherslu á iðnað frá Norska Tækniháskólanum (NTNU) í Þrándheimi, Noregi, og með sérhæfingu í stefnumótun og nýsköpunarstjórnun. Hún skrifaði meistararitgerð sína fyrir Mørenot um hvernig eigi að skipuleggja kerfisbundna nýsköpun og var síðan beðin um að ganga til liðs við stjórnendateymi samstæðunnar sem stefnumótunar- og viðskiptaþróunarstjóri.
„Megináhersla mín í Mørenot hefur verið að innleiða kerfisbundna nálgun við þróun og eftirfylgni með stefnumótandi verkefnum, þar á meðal UFS stefnu fyrirtækisins. Þó að það geti verið erfitt að ná utan um allt sem lýtur að sjálfbærni, þá hefur markmið mitt verið að búa til heilstæðan stefnuramma sem hentar fyrirtækinu og gerir skýrslugerð eins skilvirka og mögulegt er,“ segir Marthe.
„Hjá Hampiðjunni mun ég bera ábyrgð á að þróa áfram og innleiða UFS stefnur sem mæta kröfum viðskiptavina okkar og skila samkeppnisforskoti. Ég hlakka til að sameina þekkingu og sérfræðikunnáttu allra fyrirtækja í samstæðu Hampiðjunnar til að gera Hampiðjuna að UFS leiðtoga innan veiðarfæra- og fiskeldiskvíaframleiðslu á heimsvísu,“ segir Marthe.
Um nýtt hlutverk Marthe innan Hampiðjunnar Group segir Hjörtur Erlendsson forstjóri: „Við erum ánægð með að hafa Marthe til að leiða vinnuna við að styrkja áherslur okkar í UFS málum. Hún býr að góðri reynslu og þekkingu á þeim málum sem gera okkur kleift að innleiða stefnu okkar í fyrirtækjum Hampiðjunnar um allan heim. Það ásamt forystu Hampiðjunnar í endurnýtingar- og endurvinnslumálum notaðra veiðarfæra og fiskeldiskvía gerir okkur kleift að gera enn betur. Marthe er af þeirri kynslóð sem sem ólst upp eftir aldarmótin þegar einstaklingar, fyrirtæki og þjóðir hafa staðið frammi fyrir vaxandi áskorunum sem tengjast loftslagsbreytingum, samfélagsmálum og þörf fyrir trausta stjórnarstefnu. Við hlökkum til að vinna með henni og halda áfram að þróa okkar leið til að takast á við þessar áskoranir þekkjandi hversu ötul hún er og hennar mikla metnað til að gera betur á þessu sviði.“