Hampiðjan tekur þátt í stærstu sjávarútvegssýningu heims
Stærsta sjávarútvegssýning heims er nú haldin í Brussel í Belgíu. Sýningin hófst í morgun og mun hún standa fram á fimmtudag. Hampiðjan tekur nú aftur þátt í sýningunni eftir góðan árangur á síðasta ári. Fulltrúar fyrirtækisins að þessu sinni eru þeir Haraldur Árnason, sölu- og markaðssjóri veiðarfæra, og Gestur Rúnarsson sölustjóri.
Að sögn Haraldar hefur það mikla þýðingu fyrir fyrirtæki eins og Hampiðjuna að vera á staðnum og hitta núverandi viðskiptavini og nýja.
,,Megin áhersla Hampiðjunnar á sýningunni verður að kynna nýja hönnun á flottrolli til makrílveiða en þessi nýju troll eru með meiri breidd en fyrri gerðir. Við munum kynna það nýjasta í DynIce togtaugum sem sífellt fleiri útgerðir eru að taka í nokum við togveiðar. DynIce Data höfuðlínukapallinn eru nú kominn um borð í allmörg skip og er óhætt að segja að kapallinn ætli að standa undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar í upphafi. Að sjálfsögðu munum við einnig halda á lofti öllum öðrum þeim vörutegundunum sem tengjast veiðarfærasviði Hampiðjunnar,“ segir Haraldur Árnason.
Sýningarbás Hampiðjunnar er á ICEland svæðinu í sýningarhöll 4 og er hann merktur með tölunum 6127-5.
Sjávarútvegssýningin í Brussel er tvískipt líkt og verið hefur. Annars vegar er sýning fyrir framleiðendur afurða og svo hins vegar þá sem framleiða tæki og þjónusta sjávarútveginn. Á vef Íslandsstofu kemur fram að alls sýna 33 fyrirtæki undir hatti merktum ICELAND á því svæði sem Íslandsstofa ráðstafar. Þar af eru 15 fyrirtæki í véla-, tækja- og þjónustuhlutanum og 18 fyrirtæki í sjávarafurðahlutanum. Að auki sýna fimm önnur íslensk fyrirtæki á sýningunni og meðal þeirra er Hampiðjan.
Á heimasíðu sjávarútvegssýningarinnar í Brussel kemur fram að búast megi við um 26.000 seljendum og kaupendum á sýninguna frá alls 146 löndum.