Hampiðjan verðlaunuð á Íslensku sjávarútvegssýningunni
Íslenska sjávarútvegssýningin var sett formlega í gærmorgun af Sigurði Inga Jóhannessyni, ráðherra sjávarútvegsmála. Síðdegis sama dag voru veitt verðlaun þeim fyrirtækjum sem þótt hafa skarað fram úr á sínu sviði á vettvangi íslensks sjávarútvegs. Hampiðjan var meðal verðlaunahafa og viðurkenningin fékkst í flokknum ,,Outstanding Icelandic Supplier – Catching“ en í því felst að fyrirtækið sé framúrskarandi á sviði þjónustu við fiskiskipaflotann.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins og að sögn hans er það sannkallaður heiður að starfsemi fyrirtækisins sé metin svo mikils.
,,Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur og um leið hvatning til þess að halda ótrauð áfram og gera enn betur í framtíðinni.“
Að sögn Hjartar er Íslenska sjávarútvegssýningin mjög mikilvæg fyrir fyrirtæki eins og Hampiðjuna.
,,Þetta er ekki sölusýning í þeim skilningi en þessa daga gefst okkur kostur á að hitta gamla viðskiptavini okkar og vonandi efla til nýrra samskipta sem geta skilað gagnkvæmum ávinningi þegar fram líða stundir. Sýningin fer mjög vel af stað og það hefur verið nóg að gera á sýningarbás okkar þessa fyrstu tvo daga,“ segir Hjörtur Erlendsson.