Helstu niðurstöður kjöhæfnismælingar á T90 þorskpokanum með DynIce Quicklínukerfinu
Samkvæmt niðurstöðum rannsókna Haraldar Einarssonar fiskifræðings varðandi kjörhæfnimælingar á T90 þorskpoka með DynIce Quicklínukerfinu frá Hampiðjunni, eru kostirnir við að nota slíkan poka umtalsvert meiri miðað við venjulegan tveggja byrða þorskpoka. Rannsóknirnar fóru fram um borð í ísfisktogaranum Helgu Maríu AK fyrir skömmu en auk Haraldar og áhafnar togarans tóku tveir rannsóknamenn og sérfræðingur frá Hampiðjunni þátt í þeim.
Niðurstöðurnar voru kynntar á fundi í Hampiðjunni 30. nóvember s.l. Að sögn Haraldar var T90 þorskpokinn með DynIce Quicklínukerfinu prófaður á tíu togstöðvum úti af Vestfjörðum auk þess sem tekin voru þrjú hol með hefðbundnum poka til samanburðar.
T90 pokinn er fjögurra byrða, felldur á DynIce Quicklínur, með 155 mm þvernetsmöskva en til samanburðar var notaður hefðbundinn 155mm þorskpoki í tveimur byrðum.
Utan yfir pokana var svo fínriðið net með poka fyrir aftan sem safnaði saman þeim fiski sem smaug út í gegnum möskvana. Þess má geta að Hampiðjan hefur sótt á einkaleyfi á framleiðslu og sölu á umræddu kerfi og er sú umsókn nú í vinnslu.
Haraldur segist vera ánægður með útkomuna úr rannsókninni.
,,Þessi nýi poki tjaldar nánast öllum þeim atriðum sem geta aukið kjörhæfni en einnig gæði fisksins sem veiðist.
Vinnslumenn segja okkur að fiskur, sem veiðist í þennan poka, sé síður blóðmarinn þótt við sjáum þess ekki greinileg merki úti á sjó,“ segir Haraldur en meðal þess sem tekið var eftir við rannsóknina var að stærsti hluti undirmálsfisks fer úr pokanum.
,,Helmingurinn af þorski sem var rétt undir 56 cm langur fór út um möskvana en það hlutfall hækkaði hratt eftir því sem fiskurinn var smærri. En í tveggja byrða poka með samskonar möskva á síðu var um 9 cm hliðrun eða 47 cm þorskur sem fór út að helmingi og því var mun meira af smáfiski í þeim poka. Rannsóknir erlendis benda ótvírætt til að lífslíkur þorsks og ufsa, sem smýgur út með þessum hætti, séu miklar og jafnvel stærri ýsan lifir af möskvasmugið ef það á sér stað á togdýpi. Karfinn er viðkvæmari við þrýstingsbreytingum en margar aðrar fisktegundir en karfi sem sleppur út á togdýpinu lifir það sennilega af.“
Að sögn Haraldar er áhugi á því af efna til sambærilegrar rannsóknar á karfaslóð við tækifæri en vísbendingar benda til að það sé sennilega betra nota minni möskva en135 mm eins og hefur verið notaður á karfaveiðum.
Haraldur segist einnig vera ánægður með samstarfið við hagsmunaðila varðandi rannsóknarstörfin.
,,Í tilvikum sem þessum fer kunnátta allra saman. Sjómennirnir þekkja miðin og tilhögun veiða, veiðarfærameistararnir leggja til sína reynslu og þekkingu og loks má nefna mína sérfræðikunnáttu sem fiskifræðingur. Ég held að vinnubrögð eins og þau sem viðhöfð voru við þessa rannsókn hljóti að vera besta leiðin til að auka sameiginlegan skilning allra þeirra sem að málum koma,“ sagði Haraldur Einarsson.