,,Við höfum notað DynIce togtaugar frá Hampiðjunni frá árinu 2009 og ég held að ég geti fullyrt að við séum með meiri reynslu af notkun þessara togtauga en nokkur annar. Það er margsannað að fjárhagslega koma þær miklu betur út en nokkrir togvírar og það er bara einn af fjölmörgum kostum tauganna.“
Þetta segir Sigurgeir Pétursson togaraskipstjóri, sem búsettur hefur verið í Eyjaálfu í rúmlega aldarfjórðung og starfað sem skipstjóri víða á suðurhveli jarðar allan þann tíma, í samtali við tímarit Fiskifrétta sem út kom nú í vikunni.
Alltaf með fjögur troll undirslegin
,,Þetta er ólíkt öllum togveiðum sem menn þekkja heima á Íslandi. Við getum verið að veiða á allt frá 90 metra dýpi niður á 1.400 metra í sömu vikunni.
Við erum alltaf með tvö botntroll og tvö flottroll undirslegin og maður veit aldrei fyrirfram hvað verður fyrir valinu og er sett í sjó hverju sinni. Það veltur á lóðningunum sem við leitum uppi,“ segir Sigurgeir en samkvæmt upplýsingum hans eru notuð Carmen botntroll frá Hampiðjunni og flottroll af gerðinni Gloría 1408 og Gloría 928, svokölluð breiðskafa þar sem höfuðlínuhæðin er þriðjungurinn af breidd trollsins.
Það síðast nefnda er í mestri notkun um borð.
,,Við notum bara flottrollshlera, Apollohlera frá Hampiðjunni, og ég hef ekki notað botntrollshlera sl. fimm ár. Þannig verður það áfram og botntrollshlerar koma ekki aftur um borð svo lengi sem ég fæ einhverju um ráðið.“
Kostir DynIce togtauganna eru ótvíræðir
Sigurgeir getur ekki leynt ánægju sinni með DynIce togtaugarnar sem notaðar eru í stað togvíra.
,,Það er miklu betra að stjórna trollinu með þeim og við höfum leikið okkur að því að fara með botntroll og veiða upp á 800 til 900 metra dýpi. Það er alltaf beint átak í toghlerana og fyrir vikið getum við lyft trollinu um leið og við verðum varir við ójöfnur eða karga fyrir framan trollið. Okkar veiðiskapur er þannig að við þvælumst mjög víða og leitum að fiski sem lóðar á. Með togtaugunum eru beygjur engin vandamál. Trollið helst alltaf opið og heldur áfram að fiska þótt við beygjum eins og okkur listir,“ segir Sigurgeir Pétursson.
Sjá nánar viðtal í nýjasta tímariti Fiskifrétta.