Loðnunótatúr með Ingunni AK-150
Nú þegar líður að lokum vetrarvertíðar á loðnu er ekki úr vegi að segja frá veiðiferð með einu HB Grandaskipanna, Ingunni AK-150, á vertíðinni í fyrra. Meðfylgjandi myndband og myndir segja meira en mörg orð.
https://www.youtube.com/watch?v=-9CbjSKFDRU&list=UUjTLn34_xYp24mfFHRr_KyQ
Vernharður Hafliðason, einn netagerðarmeistara Hampiðjunnar slóst í för með Guðlaugi Jónssyni skipstjóra og áhöfn hans um miðjan febrúar. Farið var af stað frá Vopnafiðri og siglt austur, suður og vestur með landinu, allt vestur fyrir Vestmannaeyjar. Þar voru lestar skipsins fylltar af 2.000 tonnum af loðnu í fjórum köstum og gengu veiðarnar mjög vel í ágætis veðri.
Hringnót Ingunnar, sem notuð var við veiðarnar, er 230 faðmar 420 metrar) að lengd á korkateini og hún er 65 faðmar 120 metrar) að dýpt. Þetta stóra og tilkomumikla veiðarfæri er ekki mikið fyrir augað þegar það liggur í hrúgu um borð í veiðiskipi eða í nótageymslu Hampiðjunnar við Skarfagarða. Það er hins vegar allt annað uppi á teningnum þegar hringnótin er í notkun við réttar aðstæður. Þá skarar þetta afkastamikla veiðarfæri fram úr öllum öðrum veiðarfærum í veiðigetu, veiðihæfni og hvað það er rekstarvænt hvað varðar olíunotkun.
Hringnótin er tilkomumikil þegar hún er notuð við veiðar. Það hefur hins vegar alltaf verið erfitt fyrir bæði leikmenn og fiskimenn að gera sér í hugarlund hvernig nótin lítur út í sjónum þegar hún er í notkun.
Þegar kemur að virkni hringnótarinnar má segja að það gildi sömu lögmál um hana eins og togveiðarfærin. Það þarf hraða til að kasta nótinni út af skipinu í hring og þá þenja straumar og sjávarföll nótina út, blýteinninn sekkur niður og korkateinninn heldur í á móti í yfirborðinu. Þegar köstun lýkur, hefst snurpun nótarinnar sem þýðir að henni er lokað með því að hífa blýteininn upp að skipshlið. Þar með er búið að loka undankomuleið fiskisins út úr nótinni ef styggð kemur að honum í veiðiferlinu. Þróunin í nótaveiðinni er ekki eins hröð og í togveiðarfærum fyrir utan það að næturnar hafa stækkað og verða þyngri og fyrirferðameiri. Er það rökrétt framhald af því að skipin stækka og ráða þá betur við að kasta við erfiðari aðstæður en áður. Það hafa verið gerð módel af nótum og þau hafa hjálpað mikið við að gera sér í hugarlund hvernig þær eru í notkun. Hins vegar er ekki mikið um að það hafi verið teknar myndir neðansjávar af þeim á veiðislóð. Módel af nót í tilraunatanki var sýnt í vinnuferð Hampiðjunnar í nóv/des árið 2012 og vakti sú kynning mikla hrifningu nótamanna og einkum það að sjá nótina við þessar aðstæður. Það var áhrifamikið að sjá köstun og snurpingu í tanknum og er greinilegt að þetta er framkvæmanlegt í smækkaðri mynd eins og þarna var verið að sýna. Módelið var í skalanum 1:80 sem vísar til þess að þetta eru risaverkfæri þegar þau eru í notkun.