Loðnuvertíðin hafin fyrir alvöru
Síðustu daga hefur verið annríki hjá starfsmönnum netaverkstæðis Hampiðjunnar í Reykjavík enda virðist loðnuvertíðin vera hafin fyrir alvöru.
Fjöldi skipa veiðir nú loðnu í grunnnætur austur undir Hornafirði og önnur eru sem óðast að skipta djúpnótunum út og taka grunnnæturnar um borð.
Faxi RE var í höfn við höfuðstöðvar Hampiðjunnar við Skarfagarða í Reykjavík í gærmorgun og að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra var byrjað að taka 209 metra djúpnótina, flottrollið auk toghlera frá borði snemma í morgun og 126 metra grunnnótin var komin um borð nú í hádeginu. Í gær var Bjarni Ólafsson AK í höfn í sömu erindagjörðum og á mánudag tók Ingunn AK grunnnótina um borð.
,,Við geymum þau veiðarfæri sem ekki er verið að nota hjá Hampiðjunni og þar er gert við það sem aflaga hefur farið,“ segir Albert en hann reiknar með því að starfsmennirnir á netaverkstæðinu muni hafa nóg að gera á næstunni enda var djúpnótin, sem sett var í land í morgun, ekki í lagi eftir síðustu veiðiferð.
,,Við vorum þá vestur á Hornbanka og lentum í því að fá hnúfubak í nótina. Hann hefur skemmt hana því hún virkaði ekki vel eftir að við losnuðum við hvalinn úr nótinni. Við vorum svo á Vopnafirði sl. sunnudagskvöld með rúmlega 900 tonna afla og þegar búið var að landa tók við rúmlega 30 tíma sigling til Reykjavíkur.“
Albert sagðist ekki viss um hve langan tíma það tæki að sigla á loðnumiðin grunnt suður af Hornafirði.
,,Það er leiðinlegt veður og mikil kvika á leiðinni a.m.k. frá Garðskaga og austur undir Vestmannaeyjar. Sunnanáttin er enn ekki gengin niður en horfurnar eru góðar. Það er spáð norðlægum áttum næstu daga og það er einmitt það sem við þurfum þarna fyrir austan,“ sagði Albert Sveinsson.