Heimaey VE er nú á leið á loðnumiðin við Reykjanes eftir að hafa landað 2.000 tonnum af loðnu á Þórshöfn í dag og í gær. Að sögn Ólafs Einarssonar skipstjóra fékkst loðnan um 20 sjómílur fyrir vestan Vestmannaeyjar.
Heimaey komst í fréttirnar á dögunum fyrir risastórt kast á loðnumiðunum rétt út af Sandagrunni milli lands og Eyja.
,,Þetta er langstærsta kast sem við höfum nokkru sinni fengið eða um 2.300 til 2.400 tonn. Við hefðum aldrei náð að dæla loðnunni í skipið ef nótin hefði ekki hreinlega legið í botni á um 16 metra dýpi. Botninn þarna er bara sandur þannig að það var engin hætta á ferðum,“ segir Ólafur en þess má geta að Álsey VE fékk einnig að dæla um 700 tonnum af loðnu úr nótinni hjá Heimaey.
Að sögn Ólafs er greinilega gríðarlegt magn af loðnu á ferðinni vestur með suðurströndinni og þéttleikinn á torfunum er mikill.
,,Við fengum 1.500 tonna kast á dögunum og héldum þá að ekki væri hægt að gera mikið betur. Þetta risastóra kast afsannaði það heldur betur. Lái mér hver sem vill en það er ekki annað hægt en að vera bjartsýnn hvað varðar vöxt og viðgang loðnustofnsins. Mér kæmi t.d. alls ekki á óvart að við fengjum myndarlega vestangöngu loðnu á næstunni og þá geta menn í alvöru farið að endurskoða kvótann.“
Þótt notaðar séu svokallaðar grunnnætur á loðnuveiðunum við suðurströndina þá eru þessi afkastamiklu veiðarfæri engin smásmíði.
,,Grunnnótin, sem við notum, er komin til ára sinna, alltaf verið að skipta einhverjum hlutum út og setja nýja í staðinn, fyrir utan eðlilegt viðhald og viðgerðir. Nú eru t.d. komnir DynIce teinar frá Hampiðjunni að ofan og neðan og það hefur sýnt sig að þeir eru mun léttari og slitsterkari en teinarnir sem við notuðum áður og það reyndi mikið á þá í stóra kastinu en þeir stóðu fyllilega fyrir sínu,“ segir Ólafur en hann leynir því ekki að nótin sé hans uppáhaldsveiðarfæri. Það sé t.d. ólíkt skemmtilegra að vera á nótaveiðum en á veiðum með flottrolli.
,,Nótin okkar er rúmlega 110 metra djúp og um 420 metra löng. Sumir eru með allt að 550 metra langar grunnnætur en þessi nót hentar okkur vel. Hún er þyngd með blýlóðum að neðan. Ég man ekki heildarþungann á blýinu en hann er allnokkur því það á að nota 5,5 til 7,5 kíló á hvern metra. Sverleikinn á garninu í nótinni er misjafn. Við erum með 36 garn grennst og alveg upp í 72 garn í pokanum. Djúpnæturnar eru svo mun stærri eða um 200 metra djúpar og 650 metra langar. Við notum djúpnótina okkar lítið og hún hentar helst þegar verið er að veiða loðnu út af Norðurlandi og Austfjörðum í janúar og fram í byrjun febrúar,“ segir Ólafur Einarsson.