Mørenot hefur á undanförnum árum unnið að þróun nýrrar fiskilínu undir vöruheitinu Dyrkorn DX, sem byggir á yfir 100 ára reynslu af Dyrkorn fiskilínum – eins elsta og reyndasta vörumerkisins í fiskilínum. Mørenot hefur verið leiðandi í þróun og framleiðslu á Dyrkorn fiskilínum undanfarna áratugi og lagt grunninn að þeirri nýsköpun sem DX línan stendur nú fyrir.
DX línan er fáanleg í öllum helstu sverleikum og hefur þegar sannað gildi sitt í notkun við krefjandi aðstæður. Hún er allt að tvöfalt sterkari en hefðbundnar línur, um 30% léttari, og þykir sérstaklega góð við uppstokkun þar sem hún hringast einstaklega vel.
Eitt af grunnefnum DX línunnar er ofurefnið HMPE (High Modulus PolyEthylene) en það einkennist af miklum styrk, lágmarks teygju og langri endingu. Það hentar því afar vel til línuveiða og annarrar notkunar þar sem álag og áreiðanleiki eru í fyrirrúmi.
„Við höfum byggt upp mikla reynslu í vinnslu og notkun og ofurefna,“ segir Magnús Smith, sölustjóri hjá Hampiðjunni Íslandi. „Ofurefnin hafa reynst einstaklega vel í íslenskum aðstæðum og sýnt mikla endingu og stöðugleika í notkun.“
Línan hefur verið í notkun um borð í Masilik frá Grænlandi í sverleikanum 12 mm, þar sem hún hefur staðist erfiðustu aðstæður. Nýlega var einnig afhentur allur gangurinn af 9,5 mm Dyrkorn DX línu í Rifsnes og Tjald, sem báðir höfðu verið með línuna til reynslu á síðustu vertíð með góðum árangri. Þá eru nokkrir krókaflamarksbátar, þar á meðal Sandfell, Hafrafell og Fjölnir, með 7,5 mm DX línu um borð. Einnig notar Eskey línuna á handstokkum þar sem létt lína – allt að 30% minni þyngd – gerir meðhöndlun mun einfaldari.

