Danski veiðarfæraframleiðandinn Cosmos Trawl, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar, hefur hannað og þróað nýja gerð fiskaskilju sem miklar vonir eru bundnar við. Skiljan var þróuð og hönnuð í samvinnu við Nordsøtrawl sem er veiðarfæraverkstæði Cosmos Trawl í Thyborøn. Búið er að selja rúmlega tíu skiljur til danskra, norskra og sænskra útgerða og nú er þess beðið að yfirvöld í Danmörku og Noregi heimili notkun skiljunar á almennum veiðum. Í raun er nær að tala um keilulaga nethólk sem festur er inni í belg trollsins með T90 neti að framanverðu og leggneti að hluta til aftar. Inn á milli þeirra eru festir tveir lóðréttir ferningar úr plasti sem leiða seli og smáhveli út um afturenda hólksins sem tengist við netop í undirbyrði að neðan. Þar í gegn synda smáhveli og selir lifandi út um netopið á undirbyrðinu en annar fiskur syndir framhjá spjöldunum aftur í trollpokann
Að sögn Michael Lassen, framkvæmdastjóra Cosmos Trawl, er nýja skiljan, sem fengið hefur nafnið T90 Excluder, hönnuð og þróuð með uppsjávarveiðar í Norðursjó í huga. Þar veiða menn aðallega sandsíli, brisling, spærling og síld. Í ljós hefur þó komið að skiljan hentar alls staðar þar sem uppsjávartroll eru notuð. Hugmyndin að baki hönnuninni er að losna við allan stærri fisk, s.s. ufsa, þorsk og ýsu, sem og smærri sjávardýr líkt og seli og smáhveli, lifandi úr trollinu. Einnig síld og makríl þegar þannig háttar til. Það hefur tekist og sýna niðurstöður prófana svo ekki verður um villst að árangurinn er 100%.
,,Skiljan hefur verið notuð á síldveiðum og það er alveg ljóst að ef það er smáfiskur á svæðinu þá kemur hann inn í trollpokann með síldinni. Þessi smáfiskur fer niður í trollpokann en ég sé því ekkert til fyrirstöðu að hanna búnað fyrir smáfiskinn líkt og við höfum gert fyrir þann stóra, þá með þeim möskvastærðum sem við eiga,” segir Michael en hann upplýsir að selir séu stundum til vandræða fyrir heimabáta á veiðum á sandsíli og brislingi. Með notkun T90 Extruder skiljunnar sé vandamálið leyst í eitt skipti fyrir öll og selir verði ekki til vandræða sem aukaafli í framtíðinni.
Að sögn Michaels er T90 Extruder skiljan auðveld í notkun.
Nethólkum er komið fyrir aftast inni í belgnum næst pokanum. Ef þörf er á skiljunni í veiðiskap þá tekur það á að giska klukkutíma um borð að koma hólkunum fyrir,” segir Michael Lassen.