Nýjustu norsku skipin öll með DynIce búnað frá Hampiðjunni
Á sjávarútvegssýningunni NorFishing í Þrándheimi í Noregi, sem haldin var dagana 19. til 22. ágúst sl. var formlega gengið frá sölu á DynIce togtaugum og DynIce Data höfuðlínuköplum til útgerða norsku skipanna Harvest og Torbas en fyrr á árinu var sams konar búnaður seldur til útgerðar norska skipsins Kings Bay.
Að sögn Haraldar Árnasonar hjá Hampiðjunni, eru umrædd fjögur skip nýjustu og fullkomnustu uppsjávarveiðiskip Norðmanna og eru þau ýmist komin í rekstur eða verða afhent fljótlega.
,,Kings Bay fékk DynIce togtaugarnar og DynIce Data höfuðlínukapalinn í byrjun ársins og Björn Sævik, skipstjóri og eigandi skipsins, segir að veiðarnar hafi gengið mjög vel og hann sé mjög ánægður með DynIcebúnaðinn,“ segir Haraldur en hann upplýsir að útgerð Harvest fái DynIce togtaugarnar og DynIce Data gagnaflutningskapalinn afhentan í þessum mánuði. Útgerð Torbas fær sinn búnað í næsta mánuði.
,,Þrjú af þessum skipum hafa ekki verið með DynIcebúnað áður en gamli Harvest hefur notað DynIce togtaugar með góðum árangri undanfarin fjögur ár.“
„Fyrsta skipið til að taka DynIce togtaugar í Noregi var uppsjávarskipið Birkiland sem hefur notað togtaugarnar í 5 ár með mjög góðum árangri. Skipstjórinn segir að þær munu nýtast a.m.k. í 5 ár til, ef ekki lengur.“
Öll fjögur skipin verða útbúin með tveimur DynIce 38 mm 2.000 metra löngum togtaugum, sem koma í stað hefðbundinna togvíra, og DynIce Data höfuðlínukapli sem er 3.000 metra langur. Hann tengist höfuðlínustykkinu í trollinu og sér til þess að upplýsingar berist um trollopnunin hverju sinni til skipstjórnarmanna í brú skipsins.
Fimmföld ending miðað við togvíra
Að sögn Haraldar er komin átta ára reynsla á notkun DynIce togtauganna og hafa þær reyndar verið í stöðugri þróun allan þann tíma.
,,Togtaugarnar hafa fyrir löngu sannað sig. Þær eru mun léttari en togvírar og sömuleiðis mun sterkari. Verðið á togtaugunum hefur lækkað og er nú um þrefalt hærra en á togvírum en á móti kemur að endingin er mjög góð og a.m.k. fimmfalt meiri en á vírunum,“ segir Haraldur Árnason.