Skip to main content

Hjá Hampiðjan Baltic í Litháen hefur verið settur upp afar langur og öflugur slitbekkur sem getur álagsprófað allt að 104 m löng tóg og stroffur, með allt að 2.000 tonna átaki.

Enginn annar álagsprófunarbekkur af þessari stærð er til í Evrópu með svipuðu átaki og mesta lengd sem aðrir bekkir geta tekið er um 27 m. Lengdin skiptir afar miklu máli því stroffur eru sífellt að lengjast eftir því sem kranar verða stærri og öflugri, sérstaklega þeir sem notaðir eru til uppsetningar á vindmyllum og olíuvinnslupöllum á hafi úti.

Slitbekkurinn hefur tvíþættan tilgang því við framleiðslu á stórum stroffum þá þarf að fyrst stilla lengdina nákvæmlega af í byrjun splæsvinnunar og eftir að framleiðslu á þeim lýkur, að álagsprófa við mun hærra átak en þær eru hannaðar fyrir. Þegar því er lokið, er gefið út vottorð sem staðfestir álagsprófunina og nákvæma lengd, sem tryggir að stroffur og tóg uppfylli strangar öryggiskröfur áður en þær fara í notkun.

Samkeppnisforskot Hampiðjunnar í ofurstroffum er því gott enda er ofurkaðlaverksmiðja Hampidjan Baltic sú tæknilega fullkomnasta sem vitað er um. Fléttivélin sem notuð er við fléttingu á ofurstroffum er sú stærsta sem völ er á og nú hefur bæst við lengsti álagsprófunarbekkurinn í Evrópu fyrir allt að 2.000 tonna álagsprófun.

Bekkurinn var upprunlega hannaður og byggður af hollenska fyrirtækinu Dutch Heavy Lift Consultants (DHLC) í Hollandi en samstarf Hampiðjunnar og DHLC hefur verið náið í mörg ár.

Slitbekkurinn var upprunalega 40 m langur og staðsettur í Hollandi en vegna þess að það tók langan tíma og skapaði mikinn kostnað og fyrirhöfn að flytja stroffur fram og til baka milli landa til prófunar, þá var ákveðið að flytja hann til Hampidjan Baltic í Litháen og nota tækifærið og lengja hann í 104 m.

Þar getur Hampiðjan Baltic nú, samhliða hönnun og framleiðslu á ofurtógsstroffum, annast prófanir fyrir DHLC og skilað verkefnum á styttri tíma og á hagkvæmari hátt.

Bekkurinn er einnig nýttur fyrir verkefni annarra viðskiptavina enda er stöðug aukning í eftirspurn á stórum ofurstroffum.

Fyrsta verkefnið í slitbekknum var prófun á 24 stroffum úr Robus HMPE ofurefni sem Hampiðjan Baltic framleiðir fyrir hollenskt fyrirtæki í þungalyftingum. Þvermál fléttaða tógsins er 186 mm og lengstu stroffurnar eru allt að 80 metrar. Heildarþyngd allra 24 stroffanna er um 32 tonn.

Stroffurnar verða notaðar við uppsetningu tveggja vindmyllugarða í Norðursjó í sumar.