Nýtt netaverkstæði tekið í notkun í sumar
Vegna stóraukinna umsvifa danska veiðarfæraframleiðandans Nordsötrawl AS i Thyborön er nú í byggingu 2.600 fermetra verksmiðjuhúsnæði sem verður tekið í notkun í sumar.
Mun nýbyggingin að stærstum hluta nýtast sem aukið rými fyrir veiðarfæraframleiðsluna en þar verða einnig skrifstofur fyrirtækisins.
Fjallað er um þetta verkefni á heimasíðu Nordsötrawl en félagið er eitt af dóttur- og hlutdeildarfélögum Hampiðjunnar. Þar er haft eftir Flemming Ruby framkvæmdastjóra að um leið og nýja verksmiðjan verði tekin í notkun verði gömlum framleiðslubúnaði skipt út fyrir nýjan. Búið er að selja núverandi húsnæði Nordsötrawl.
Ruby vill ekki gefa upp hve stór fjárfesting fyrirtækisins sé vegna þessara framkvæmda en hann segir hana vera fyllilega tímabæra vegna aukinna umsvifa. Ekki bara á innanlandsmarkaði heldur einnig erlendis en um 60% af veiðarfæraframleiðslunni eru seld til erlendra útgerða.
,,Það er vaxandi spurn eftir okkar framleiðslu,“ segir Ruby en hann vekur athygli á því að vegna aukinna viðskipta hafi fyrirtækið bætt við sig starfsfólki. Nú starfa 14 manns í fullu starfi hjá Nordsötrawl og þar af eru tveir lærlingar í netagerð.
,,Við vitum að netagerðarmenn vaxa ekki á trjánum og þess vegna höfum við lagt áherslu á að mennta unga menn í faginu og veita þeim starfsþjálfun,“ segir Flemming Ruby en hann útilokar ekki að hægt verði að auka starfsmannafjöldann þegar nýja verksmiðjan verður tekin í gagnið.