Hróðmar Ingi Sigurðsson er kominn til starfa hjá Hampiðjunni. Hlutverk hans verður að hafa umsjón með sölu á toghlerum og togvírum ásamt almennri sölu á veiðarfærum og tengdum vörum.
Hróðmar Ingi er rekstrarfræðingur og viðskiptafræðingur frá Tækniháskóla Íslands og með 3. og 2. stigs réttindi stýrimanna frá Sjómannaskólanum í Reykjavík. Hann hefur jöfnun höndum unnið á sjó eða í landi og nú síðast var hann yfirstýrimaður á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS. Áður hefur hann m.a. starfað sem innkaupa- og rekstrarstjóri hjá Öryggismiðstöðinni og Rými-Ofnasmiðjunni og verið skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Eldingu.
,,Ég fór fyrst á sjóinn 17 ára. Þar sem ég ólst upp í Keflavík þá lá það beinast við að prófa sjómennskuna. Ég hafði sem krakki og unglingur, unnið mikið í fiski og sjávarútvegurinn hefur heillað mig síðan ég man eftir mér. Ég byrjaði á línubátum í Sandgerði en fyrsta togaratúrinn fór ég árið1988 á Bergvík KE eða tvo síðustu túrana áður en skipið var selt. Kristinn Gestsson var þá skipstjóri. Ég fór síðan á frystitogarann Aðalvík KE og var á honum þangað til skipið var selt til ÚA. Togarinn fékk nafnið Sólbakur EA. Ég fylgdi með í kaupunum og var á Sólbaki í rúmt ár,” segir Hróðmar Ingi.
Hann segist fyrst hafa kynnst loðnuveiðum á nótaskipinu Sjávarborg GK á vertíðinni 1992 en eftir vertíðina réð hann sig svo á Höfrung III AK sama ár.
,,Það má eiginlega segja að þar hafi ég alist upp sem togarasjómaður á Höfrungi III. Ég var alltaf með aðra löppina þar inni. Kom aftur eftir Stýrimannaskólann og svo aftur eftir háskólanámið.”
,,Ég var svo búinn að vera í landi í tvö ár þegar Covid skall á en þá réð ég mig á Júlíus Geirmundsson ÍS og var þar í tvö ár
eða þangað til að ég fór til Hampiðjunnar.”
Hróðmar Ingi segir að hann hafi trúlega fyrst komist í tæri við veiðarfæri frá Hampiðjunni á Höfrungi III AK.
,,Lengst af vorum við með Bacalao 88 og 106 metra í strekktu ummáli og bæði skiluðu okkur frábærum árangri,” segir Hróðmar Ingi Sigurðsson.