Ótvíræðir kostir við að nota flottrollshlera á botntrollsveiðum
Mjög góð reynsla er af notkun flottrollshlera á veiðum togara með botntroll en fimm ár eru liðin frá því að þessi nýjung var reynd um borð í íslenskum togara, Barða NS frá Neskaupstað. Síðan hefur þeim fjölgað ár frá ári og nú eru allir Austfjarðatogararnir farnir að nota þessa aðferð. Þá hefur Kaldbakur EA einnig verið með flottrollshlera við botntrollið að undanförnu Af öðrum má nefna tvo togara HB Granda, Sturlaug H. Böðvarsson AK og Þerney RE, og áhafnir á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK og Vestmannaey VE hafa notað flottrollshlera á botntrollsveiðum sl. fjögur ár með góðum árangri.
Talið er að nefnd veiðiaðferð hafi fyrst verið reynd í Alaska í Bandaríkjunum í Alaska ufsa veiðinni. Hér heima riðu Thyboron Trawldoors og Síldarvinnslan á vaðið og unnu í sameiningu að fyrstu tilraununum hér við land um borð í Barða NK árið 2009 og ári seinna um borð í Björgvin EA.
Fyrstu prófanir lofuðu strax góðu því í ljós kom að notkun flottrollshleranna í stað hefðbundinna botntrollshlera kom síður en svo niður á veiðihæfninni.
Jafnmikil veiði en mun minni kostnaður
Einn þeirra, sem hefur góða reynslu af notkun flottrollshlera á botntrollsveiðum, er Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, en þessi veiðitækni var fyrst reynd um borð í togaranum í febrúarmánuði 2012.
,,Við byrjuðum á að nota sex fermetra Apollo Xstream flottrollshlera frá Hampiðjunni en hvor um sig vó 1.800 kíló. Það kom í ljós að þeir voru of kröftugir þótt búið væri að stilla þá þannig að þeir væru með minnsta átakshorn eða ,,skver“ eins og við nefnum það. Hlerarnir virkuðu þrátt fyrir það mjög vel en ég var búinn að ræða það við sérfræðinga Hampiðjunnar að ég gæti notað minni hlera. Niðurstaðan varð sú að við tókum í notkun 5,5 fermetra Apollo Xstream flottrollshlera í ágúst í fyrra. Hlerarnir eru þykkri en þeir sem við vorum með áður og vega 1.800 kg eins og fyrri hlerar. Þeir virka mjög vel og kostirnir við að nota þá í stað botntrollshlera eru umtalsverðir. Hlerarnir fara mjög sjaldan í botn á togi og það neðsta sem þeir fara eru e.t.v. tveir til þrír faðmar frá botni. Okkar reynsla er sú að við rífum trollið mun sjaldnar nú en áður eð tilheyrandi netasparnaði. Flottrollshlerarnir eru léttari í drætti og það fara betur með togspilin. Það hefur tvímælalaust dregið úr olíueyðslunni, hlera- og togvíraviðhald er mun minna og umfram allt þá veiðum við ekkert minna en áður,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir að tvö 1.450 til 1.500 kílóa lóð séu hengd á hvorn grandara og þyngd eins lóðs og hlera sé ekki ósvipuð þyngdinni á botntrollshlerunum sem notaðir voru áður, eða um 3.200 kíló.
,,Ég sé engan mun á því hvaða fisktegund er verið að veiða. Aflinn er síst minni en áður. Sumir segja reyndar að það fáist meiri ufsi með notkun flottrollshleranna en það hefur verið svo lítið um ufsa á veiðislóðinni sl. haust og í vetur að það er erfitt að meta árangurinn hvað ufsann varðar,“ segir Eiríkur Jónsson.
Það má segja að helstu vankantarnir við þessa aðferð hafi verið að þegar dregið er í miklum mótstraum þá hafa hlerarnir tilhneigingu til að lyftast og sækja upp og þá hefur annað hvort þurft að minnka ferð eða auka við víralengd. Þetta vandamál tel ég að við höfum leyst með því að færa togvírinn í neðstu (bracket) stillingu á hleranum.Við það verður hlerinn betur uppréttur í sjónum og sækir ekki upp frá botninum. Eftir þessa breytingu þurfum við minni togvír eða rétt um tvöfalt togdýpið. Við höfum prófað þá í miklum straum og hafa þeir ekki sótt upp frá botni þrátt fyrir að keyrt væri áfram á fullu afli. Hleramillibilið minnkaði aðeins við breytinguna en það var aukið af tur með stærra átakshorni. Nú til dags er mun betra að stjórna toghlerum, áður en okkur gafst kostur á miklu úrvali hleranema. Í dag erum með tvöfalt sett af nemum á hvorum hlera, annarsvega nema sem sýna togdýpi hleranna og fjarlægð á milli þeirra. Við sjáum hvort hlerinn hallar lóðrétt eða lárétt (pitch og roll) og nema sem sýna okkur fjarlægð hlerans niður að hafsbotni. Þessi frábæra tækni frá Marport og Scanmar gerir okkur kleift að stjórna hlerunum af mikilli nákvæmni.